Viljum við vera úthrópaðir mengarar?
Umhverfisnefnd Alþingis tók í gærkvöldi ákvörðun um að stefna að því að Íslendingar verði enn meiri umhverfismengarar á grundvelli ákvæðis 14/CP.7, [íslenska ákvæðið]* en þegar er raunin með því að samþykkja þingsályktunartillögu meirihluta nefndarinnar, Framsóknar- og Sjáflstæðismanna sem fjallar um svokallaða „hagsmuni Íslendinga í loftslagsmálum“. Hugmynd nefndarinnar með samþykkt tillögunnar er að knýja á um að ríkisstjórnin fari fram á framlengingu „íslenska ákvæðisins“ í samninguviðræðum á vegum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, Kyoto bókunina. Þrátt fyrir að Ísland hafi undirritað skuldbindingar til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 25-40% fyrir árið 2020.
En hugsunarháttur frá 2007 er greinilega enn við lþði í hugum þeirra sem halda að framlenging íslenska ákvæðisins sé nokkuð annað en tímaskekkja enda engan vegin í takt við það sem er að gerast, hvorki í ljósi efnahagsástandsins, en jákvætt efnahagsástand og lánshæfi hlýtur jú að vera grundvöllur fyrir því að slík ákvæði komi nokkurn tíma til með að vera nýtt. Losunarkvótar eru á leiðinni að verða vara í viðskiptum og því kemur það ekki í hlut ríkisins að vera að skara stærri hlut að sinni köku einungis til að lokka að erlend stóriðjufyrirtæki og veita þeim ívilnanir ofan á það að kaupa orku á lágmarksverði.
Rammaáætlun Sameinuðu þjóðanna fellur úr gildi árið 2012 og þvi er nú verið að semja við þjóðir heims um framlengingu, með það að markmiði að ná utan um kolefnislosun heimsins og forða okkur frá áhrifum frekari lofslagsbreytinga. Losunarheimildir með íslenska ákvæðinu eru nú árlega 3,7 milljónir tonna en með áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum er reiknað með að hún verði orðin mun meira árið 2012. Þess vegna vill umhverfisnefnd, sem ætti nafninu samkvæmt fyrst og fremst að bera hag umhverfis og náttúru fyrir brjósti, að íslenska ákvæðið gildi áfram eftir 2012, til þess að stefna flokka þeirra þingmanna sem standa að tillögunni bíði ekki algert skipbrot, jafnvel þó þær stefnur hafi nú þegar sokkið í hyldýpið.
Rökin sem meirihluti umhverfisnefndar færði, byggjast á því að við séum að „nota endurnýjanlegar orkulindir“ en það er auðvitað ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Raforkuvinnsla á Íslandi er langt frá því að vera sjálfbær og þaðan af siður umhverfisvæn. Í ofanálag hefur undaný ága til hámörkunar kolefnislosunar ekkert með það að gera í sjálfu sér.
Náttúran sjálf hefur aldrei verið metin til fjár á Íslandi heldur hefur hún verið tekin inn í reikninginn á núlli. Nú þegar hefur helmingur allrar nýtanlegra orku (14 TWh/a) verið virkjuð og það er ekki samstaða um það innan samfélagsins að Ísland skipi sér í hóp mest mengandi þjóða heims.
Í grein Náttúruverndarsamtaka Íslands sem birtist hér á vefnum þ. 19. mars 2008 gæti tilraun Íslands til að semja um framlengingu íslenska ákvæðisins einnig orðið efniviður í hugsanlega kröfu um ábyrgð ríkisins þar sem slíkt væri ekki í samræmi við „að sýna kostgæfni við að hindra og lágmarka tjón af völdum loftlagsbreytinga“. (Sjá grein).
*Íslenska ákvæðið:
Íslenska ákvæðið gerir ráð fyrir því að koldíoxíðlosun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvera, sem hefur starfsemi eftir 1990 og leiðir til meira en 5% aukningar í losun á fyrsta skuldbindingar tímabili bókunarinnar (2008-2012), verði haldið utan við losunarskuldbindingar bókunarinnar eftir að losunarheimildir viðkomandi lands hafa verið fullnýttar. Ákvörðunin nær aðeins til þeirra ríkja sem losuðu minna en 0,05 % af heildarkoldíoxíðlosun iðnríkjanna 1990. Auk þess voru sett ákveðin viðbótarskilyrði. Meðal annars er gerð krafa um notkun endurnýjanlegrar orku, að notkun hennar leiði til samdráttar í losun á heimsvísu, besta fáanlega tækni sé notuð og að bestu umhverfisvenjur séu viðhafðar við framleiðsluna.Mikilvægt er að undirstrika að íslenska ákvæðið nær einungis til koldíoxíðlosunar. Við álframleiðslu losnar auk koldíoxíðs umtalsvert magn af flúorkolefnum. Þetta eru mjög virkar gróðurhúsalofttegundir sem eru langlífar í andrúmsloftinu. Það er því mikilvægt að halda myndun þeirra í skefjum. Losun þessara efna þarf að rúmast innan almennra. (Umhverfisstofnun).
Grafík: Hvað er í farteskinu? Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Viljum við vera úthrópaðir mengarar?“, Náttúran.is: 7. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/07/viljum-vio-vera-uthropaoir-mengarar/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. apríl 2009