Í dag hélt Græna netið samtök umhverfis- og náttúruverndarmanna í tengslum við Samfylkinguna fund undir yfirsögninni Fagra Ísland – hvenær kemur þú? á Sólon í Bankastræti, Reykjavík, í morgun.

Umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir var gestur fundarins og ræddi um náttúruvernd og auðlindir, stóriðjuáform, þjóðgarða og verndarsvæði.

Í viðtali sem birt var í kvöldfréttum Sjónvarpsins í kvöld kom fram að Þórunn hafi gagnrýnt sveitarstjórnir harðlega fyrir að taka ekki nægilegt tillit til náttúruverndarsjónarmiða við skipulagsákvarðanir. Náttúrunni sé of oft fórnað fyrir atvinnusjónarmið. Hún fái heldur ekki séð hvernig ríksifyrirtæki eins og Landsvirkjun geti lofað sveitarfélögum þjónustubótum fyrir tilhliðranir í aðalskipulögum eins og raunin var í Flóahreppi v. Urriðafossvirkjunar. Slík þjónusta sé á höndum ríkisins en ekki fyrirtækja.

Þórunn sagði ennfremur að ekki komi til greina að taka lönd eignarnámi til að gera virkjanir við neðri hluta Þjórsár mögulegar. Almmannhagsmunir séu ekki í húfi í þessu tilviki.

Gnúpverjar sem fjölmennuðu á fundinum lýstu því yfir að loknum fundi að of snemmt væri að að hrósa sigri þrátt fyrir orð Þórunnar enda segi Landsvirkjun að landeigendum komi þetta ekkert við.

Myndin er tekin við Urriðafoss. Ljósmynd: Árni Tryggvason.
Birt:
1. desember 2007
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sveitarfélög axli meiri ábyrgð gagnvart náttúrunni“, Náttúran.is: 1. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/01/sveitarfelog-axli-meiri-abyrgo-gagnvart-natturunni/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: