Grænir bankar keppa um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs
Alls eru 15 aðilar tilnefndir til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2010. Átta eru frá Svíþjóð, þrír frá Noregi, tveir frá Finnlandi og tveir frá Danmörku. Engar tilnefningar bárust í þetta sinn frá Íslandi og sjálfstjórnarsvæðunum Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum.
Umhverfisverðlaunin, sem nema 350.000 dönskum krónum, verða nú veitt í sextánda sinn og er þema þeirra vistvæn fjármálaumsýsla. Ekobanken í Svíþjóð, Cultura Bank í Noregi , Merkur Andelskassen í Danmörku og Sampo Bank í Finnlandi eru meðal þeirra fjármálastofnana sem tilnefndar voru til verðlaunanna.
Ein tilnefning vekur athygli í ljósi þema ársins, en það er tilnefning kvikmyndaleikstjórans John Webster fyrir heimildarmyndina Recipes for Disaster. Myndin fjallar um fjölskyldu Websters sem reyndi í heilt ár að komast af án nokkurs sem framleitt er úr olíu.
Umhverfisverðlaunin 2010 verða veitt norrænu fyrirtæki, stofnun, fjölmiðli eða einstaklingi, sem hefur verið í fararbroddi og haft áhrif, beint eða óbeint, á fjármálamarkaðinni, í fjármögnunarstarfsemi, banka eða ráðgjafa í því augnamiði að ná fram langtíma markmiðum og samþætta hugmyndafræði um sjálfbæra þróun og fjármálaumsýslu.
Af þeim fimmtán sem tilnefndir eru, verða nokkrir valdir til að taka þátt í seinni umferð í vor. Dómnefndin tekur ákvörðun og tilkynnir um verðlaunahafanna á fundi sínum í maí. Verðlaunin verða afhent á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík í haust.
Norrænu Náttúru- og umhverfisverðlaunin eru ein af fernum verðlaunum Norðurlandaráðs, önnur verðlaun eru veitt fyrir bókmenntir, kvikmyndir og tónlist. Í fyrra hlaut sænska skólaverkefnið I Ur och Skur verðlaunin, en grunnhugmynd þess skóla byggir á því að börn í dagvistun og skóla eyði eins miklum tíma og mögulegt er í náttúrunni.
Skrifstofa umhverfisverðlaunanna er í danska þinginu. Sendinefnd Dana í Norðurlandaráði sér daglega umsýslu verðlaunanna.
Birt:
Tilvitnun:
Norræna ráðherranefndin „Grænir bankar keppa um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs “, Náttúran.is: 1. mars 2010 URL: http://nature.is/d/2010/03/01/graenir-bankar-keppa-um-umhverfisverolaun-norourla/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.