Ókeypis er allt það sem er best
Fimm sýningar verða í Sesseljuhúsi umhverfissetri í sumar
Sýningin „Ókeypis er allt sem er best“ - spörum fyrir okkur og umhverfið opnaði við upphaf Menningarveislu Sólheima á laugardaginn var. Sýningin er sett upp í miðrými Sesseljuhúss og er markmið hennar eins og nafnið bendir til, að minna fólk á hvað er hægt að gera ókeypis. Á sýningunni má nálgast fjölbreyttar upplýsingar um hvað er hægt að gera með engum eða örlitlum tilkostnaði, og settar fram fjölmargar hugmyndir um hvernig má á auðveldan og skemmtilegan hátt spara fyrir okkur og umhverfið. Það fer oft vel saman og er minna mál en margur heldur. Sýningunni er einnig ætlað að vekja okkur til umhugsunar um hve dýrmætar góðar stundir með okkar nánustu eru, og hve einfalt er í raun að koma þeim við.
Hrein orka – betri heimur er ný fræðslusýning um endurnýjanlega orkugjafa og orkumál
Fræðslusýningin er bæði á íslensku og ensku. Hún er að miklum hluta gagnvirk og er leitast við að útskýra hvernig orkan er beisluð úr endurnýjanlegum orkugjöfum til framleiðslu raforku, til kyndingar og fleiri nota. Sýningin er hluti af Orkugarði Sólheima sem nú er í uppbyggingu og er áformað er að sá hluti garðsins sem verður utandyra verði opnaður næsta sumar.
Í Sesseljuhúsi umhverfissetri opnuðu auk fyrrgreindra stærri sýninga þrjár minni sýningar við upphaf Menningarveislunnar. Í arinstofunni er sýningin Lifandi leir, sýning á leirskúlptúrum frá leirvinnustofu Sólheima. Auk þess eru í gangi tvær ljósmyndasýningar, annars vegar Sólheimar í tímans rás með svipmyndum frá 79 ára sögu staðarins og fólksins þar, og Heimili friðarins – Ikhaya Loxolo í Suður-Afríku, sem er systurþorp Sólheima í hraðri uppbyggingu þar sem fatlaðir og ófatlaðir búa og starfa saman með svipuðum hætti og gerist á Sólheimum.
Aðgangur að öllum sýningum í Sesseljuhúsi og öðrum sýningum og viðburðum á Menningarveislu Sólheima er ókeypis. Sýningar Sesseljuhúss eru opnar daglega frá 12-18.
Dagskrá Menningarveislunnar má nálgast á vef Sesseljuhúss sesseljuhus.is.
Mynd af börnum við skilti að Sólheimum.
Birt:
Tilvitnun:
Pálín Dögg Helgadóttir „Ókeypis er allt það sem er best“, Náttúran.is: 10. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/10/okeypis-er-allt-thao-sem-er-best/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.