Sveitarfélagið Ölfus auglýsti þ. 20 ágúst sl. um breytingu á aðalskipulagi 2002-2014 vegna Bitruvirkjunar, Hellisheiðavirkjunar, iðnaðarsvæða við Þorlákshöfn og Gráuhnúka, niðurfellingu flugvallar, breytingar á vatnsverndarmörkum og akstursíþróttasvæðis, samkvæmt 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.s.br.

Vorið 2008 átti sér stað hatrömm barátta gegn skipulagstillögum sem þá lágu fyrir um Bitruvirkjun sem enduðu með því að Orkuveita Reykjavíkur lagði áform um virkjun á Bitrusvæðinu á hilluna. Yfir þúsund athugasemdir bárust vegna skipulagsins, næstum jafn margar og íbúar Ölfuss samanlagt. Þó var ekkert mark tekið á þeim en þetta var fyrir búsáhaldabyltinguna, á þeim tíma sem daufheyrst var við mótmælum í ráðhúsi Ölfuss eins og annars staðar. Það er spurning hvort að slíkt geti gerst aftur og ef svo, hvernig lþðurinn tekur þá á málum fyrir framan ráðhús það.

Aftur, því lagabókstafurinn kveður svo á um, er almenningi gefinn kostur á að gera athugsemdir við skipulag sem gerir enn og aftur ráð fyrir Bitruvirkjun og gríðarlegri aukningu virkjanaumsvifa á svæðinu með tilheyrandi línulögnum og umhverfisspjöllum. Sjá nánar um skipulagstillöguna á vef Landmótunar.

Í auglýsingunni segir orðrétt; „Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir við aðalskipulagið.  Frestur til þess að skila þeim inn er til 3. október 2009. Skila skal athugasemdum inn á bæjarskrifstofur Ölfuss, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn. Þeir sem ekki gera athugasemdir við breytingartillöguna innan tilskilins frests teljast samþykkir henni.

Sveitarfélagið Ölfus tekur fram að þeir sem gerðu athugasemdir við auglýsta tillögu að aðalskipulagsbreytingu árið 2008, þegar Bitra var auglýst, þurfa að ítreka þær við þessa auglýsingu telji þeir að athugasemdirnar eigi einnig við nú.

Hér að neðan er tillaga að bréfi sem styður ekki auglýst aðalskipulag ef einhver telur sig eiga hagsmuni að gæta í málinu:

1) Ætlað iðnaðarsvæði er í Ölfusi suðvestan til á landsvæði í Grafningi og Ölfusi sem afmarkast af grágrþtisdyngjunni Bitru og Hengli að vestan, Þingvallavatni í norðri, fjalllendi frá Úlfljótsvatni til Reykjafjalls í austri og Hengladalsá og Varmá að sunnan.

2) Þetta er einstaklega fagurt og fjölbreytt svæði og verðmæti þess, sem náttúruperla í nágrenni þéttbýlustu svæða landsins, mun vaxa á komandi árum ef því verður ekki raskað með ætluðum breytingum. Þúsundir ferðamanna fara þarna um árlega og fjölgar þeim mjög hratt hin síðari ár.

3) Í framlögðum gögnum með auglýsingunni á heimasíðunni olfus.is eru engar marktækar viðbætur við þau gögn sem lögð voru fram með auglýsingu sama efnis vorið 2008. Umhverfisáhrif eru neikvæð á flestum sviðum og þar er einnig að finna mótsagnir samanber athugasemdir Skipulagsstofnunar sem þar eru sem fylgiskjöl.

a) Sjónræn áhrif mannvirkja, sem sum eru ætluð allt að 20 metra há, munu spilla tilfinningu fyrir óspilltri náttúru. Þröngt afmörkuð iðnaðarsvæði samkvæmt uppdráttum gefa villandi hugmynd um raunveruleg svæðisbundin umhverfisáhrif ætlaðra framkvæmda.

b) Lyktar- og hljóðmengun verður mikil og í því sambandi má benda á að flestum borsvæðunum er ætlaður staður eftir línu til suðurs skammt frá vesturbrún Klambragils og Reykjadals. Þar er vinsæll baðstaður og því fjölsóttur viðkomustaður ferðamanna.

c) Ætlaðar mótvægisaðgerðir virðast mótaðar óskhyggju og ekki líklegar til að draga verulega úr verstu umhverfisáhrifunum.

Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess er ein aðgengilegasta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og vaxandi þéttbýla austan fjalls. Þangað er auðvelt og ódýrt að fara með fjölskyldu og vini að loknum vinnudegi á meðan dagur er lengstur og einnig um helgar. Slík verðmæti eru ekki síður mikilvæg á kreppu- og sparnaðartímum heldur en t.d. orkuver sem tryggir fáum atvinnu í álverksmiðju. Ætlað iðnaðarsvæði er skilgreint sem útivistarsvæði og staðfest svo af umhverfisráðherra í janúar 2005. Þá er Ölkelduháls á náttúruminjaskrá og nauðsynlegt að engin frávik verði leyfð sem heimila gufuaflsvirkjanir þar eða í næsta nágrenni. Allt það svæði, sem skilgreint er í lið 1) hér að framan, ætti því að friðlýsa og skipuleggja með hagsmuni útivistar og fræðslu að leiðarljósi.

Undirrituð/undirritaður mótmælir því auglýstri aðalskipulagsbreytingu.

Síðan þarf að taka fram stað, dagsetningu, nafn, kennitölu og heimili til þess að athugasemdin sé fullnægjandi og senda til Sveitarfélagsins Ölfuss, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn.

Mynd: Hverasvæðið í Klambragili. Ljósmynd: Einar Bergmundur.

Birt:
15. september 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Annar slagur um Bitru í uppsiglingu“, Náttúran.is: 15. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/14/annar-slagur-um-bitru-i-uppsiglingu/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 14. september 2009
breytt: 15. september 2009

Skilaboð: