Í tilefni Dags umhverfisins þ. 25. apríl stóð umhverfisráðuneytið, SORPA og Úrvinnslusjóður fyrir sýningunni Vistvænn lífsstíll í Perlunni. Frú Vigdís Finnbogadóttir veitti m.a. bæklingnum Skrefi framar viðtöku en frú Vigdís er verndari Landverndar og flutti hugvekju í kjölfar móttöku bæklingsins. Eitt af því sem að hún tók til meðferðar í ræðu sinni var nafn Staðardagskrár 21 á Íslandi en hún lagði til að fundið yrði nýtt og meira lýsandi nafn á verkefnið.

Náttúran fór þess á leit við Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing og framkvæmdastjóra Staðardagskrár 21 á Íslandi að hann segði skoðun sína á tillögunni um að endurskoða nafn verkefnisins.

Svar Stefáns er sem hér segir:

„Annað slagið er rætt um kosti og galla orðsins „Staðardagskrá“, sem flestum þykir fremur óþjált í munni og e.t.v. ekki lýsandi. M.a. hafa heyrst tillögur um að tekið verði upp annað og þjálla nafn á fyrirbærinu. Ég get tekið undir það að „Staðardagskrá“ er ekki þjál í munni, en hins vegar finnst mér of seint og reyndar óheppilegt að reyna að finna annað heiti úr því sem komið er. Fyrir því eru þrjár ástæður:

  1. Hætta á hugtakaruglingi. Staðardagskrárheitið hefur verið notað í hart nær 15 ár. Um leið og farið er að nota annað heiti yfir sama hugtak er þtt undir hugtakarugling, sem er þó nægur fyrir. Í reynd er nefnilega útilokað að gera öllum þeim sem málið varðar, sem eru í stuttu máli allir Íslendingar, ljóst að þetta nýja orð leysi „Staðardagskrá“ af hólmi og þýði nákvæmlega það sama.
  2. Hætta á að tengsl við upprunann rofni. „Staðardagskrá 21“ er þýðing á „Local Agenda 21“. Íslenska heitið, hvert sem það er, þarf að fela í sér þýðingu á nákvæmlega þessum orðum! Ég hef aldrei heyrt neina tillögu að nýju heiti sem kemst nálægt því - og hef ég þó hlýtt á umræður um þessi mál oftar og víðar en ég hef tölu á.
  3. Í raun skiptir engu máli hvaða nafn er notað. Það er hugmyndafræðin á bak við nafnið sem skiptir máli. Hún verður hvorki torskildari né auðskildari þótt breytt sé um nafn.“
Sjá vef Staðardagskrár 21 á Ísalndi.
Birt:
30. apríl 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ekki ástæða til að breyta nafni Staðardagskrár 21 “, Náttúran.is: 30. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/30/ekki-astaeoa-til-ao-breyta-nafni-staoardagskrar-21/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 1. maí 2008

Skilaboð: