Stóriðjustefnan var óskynsamleg í þjóðhagslegu tilliti
Ráðstefna Landverndar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands „Orka og umhverf - hvernig skal standa að orkunýtingarmálum á Íslandii“ sem haldin var á Grand Hóteli þ. 20. janúar sl. markaði viss tímamót í sögu stóriðju og orkunýtingarstefnu undanfarinna ára þar sem mætir menn og konur á sviði orku- og umhverfis færðu rök fyrir því að alls ekki hafi verið staðið svo skynsamlega að málum hérlendis. En dagurinn var ekki aðeins tímamótadagur þar sem flett var ofan af því að stjóriðjustefnan hafi verið vanhugsuð og þjóðhagslega óhagkvæm ákvörðun, heldur var dagurinn um margt annað ákaflega minnisstæður sem dagurinn sem margt breyttist í þessum heimi. Barack Obama tók við embætti Bandaríkjaforseta og húsbúnaðarbyltingin náði sögulegu hámarki fyrir framan Alþingishúsið í Reykjavík.
Ráðstefnan um orkuna og umhverfið var gríðarlega vel sótt en um 110 manns mættu á þetta stefnumót sem Landvernd og Hagræðistofnun HÍ höfðu efnt til og undirbúið af mikill natni en tilgangurinn var að leiða saman málsaðila og gera tilraun til að varpa nýju ljósi á það hvernig til hefur tekist með að aðlaga orkunýtingarstefnu kröfum nútíimans um sjálfbærni og virðingu fyrir náttúrunni og ræða hvað væri hægt að gera betur í framtíðinni.
Hér verður aðeins minnst á tvö erindi en að öðru leiti vísað á grein á síðu Landverndar um ráðstefnuna í heild:
Ragnar Árnason hagfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands var einn framsögumanna en Ragnar hefur iðulega mælt fyrir munni frjálshyggjunnar og áður frekar á honum að sklja að náttúran væri lítils virð ef hún væri ekki í einkaeign (sjá dæmi: fundur RSE 07.12.2006). En Ragnar virðist hafa snúið blaðinu algerleg við og sér nú heiminn í nýju ljósi. Í gríðarlega góðu erindi Ragnars setti hann m.a. spurningarmerki við það hvort að orkunýting fyrir stóriðju sé í raun og veru svo mikilvæg fyrir Ísland. Þegar allt kemur til alls hefur ávinningur ekki verið það mikill, einungis 5% af GDP 2006. Það er ekki svo mikið miðað við það sem kostað er til benti Ragnar á. Niðurstaða: „Að selja orku til málmbræðslu er kannski ekki það besta sem við getum gert við orkuna. Það er engin reynsla komin á hvort að þetta borgi sig neitt sérstaklega fyrir landið okkar. Þegar hugsað er um framlag orkuvirkjana er framlagið til heimilanna og íslenskra fyrirtækja miklu mikilvægara en sala til málmbræðslu á allt of lágu verði“ komst Ragnar að orði.
„Niðurstaða af skoðun orkuverðs er að olía hækki (2008-2030) um 27% á ári, gas um 1,2, kol um 0,5% og rafmagn um 0,6%. Allar líkur eru til þess að íslensk orka hækki verulega í verði á næstu áratugum og því er engin ástæða til að gefa orkuna frá okkur nú.“ hélt Ragnar áfram.
Ragnar setti upp jöfnu til að reikna hagkvæmnina og skynsemina og var útkoman ávallt sú að dæmið gengi hreinlega ekki upp. Sjá glærur Ragnars.
Staale Navrud, frá Norwegian University of Life Sciences, kom fram með áhugaverðar upplýsingar um það hvernig landslag, útsýni og einstaka náttúrufyrirbrigði hafa verið metin í Noregi og víðar í Evrópu út frá því hvað fólk er tilbúið að borga í beinhörðum peningum fyrir náttúrugæðin (willingness to pay). Í framsögu sinni undir yfirskriftinni „External costs in economic appraisals of energy projects: best practices“ sjá erindi Staale færði Staale rök fyrir því að orka sé einn mikilvægasti þáttur í sjálfbærri þróun og virkjun hennar og verkefni í kringum hana því gríðarlega mikilvæg í umhverfislegu tilliti. Verkefni verði að vera til ágóða fyrir samfélagið í heild og kostnaður má ekki vera meiri en ágóðinn þegar upp er staðið. Umhverfiskostnaður verði ætíð að vera tekinn inn í myndina eins og annar kostnaður og allt sem snerti framkvæmdina sjálfa, kolefnislosun, umhverfisáhrif og lífsgæði, sem annað hvort er fórnað eða bjargað, tekið inn í reiknisdæmið. Allt hefur þetta gildi og þarf að skoða sem eina heild, annars séu forsendur kolrangar.
Kynningar Ragnars og Staales vöktu mikla athygli og sumir íslensku fyrirlesaranna virkuðu eins og 30 árum á eftir tímanum í samanburði við það sem þeir höfðu fram að færa.
Svo virðist sem að á Íslandi hafi gróðarsjónarmið í bland við pólitíska þröngsýni og skammsýni ráðið ferðinni allt of lengi en kreppan virðist hafa vakið margan góðan dreng/stúlku af Þyrnirósarsvefninum og nú gefst okkur tækifæri á að skoða hlutina í nýju ljósi og þá er gott að njóta leiðsagnar manna eins og Staale Navrud og Ragnars Árnsonar því þeir virðast sannarlega sjá maðkinn í mysunni og hafa ráð til að feta stiginn í átt að betri, hagkvæmari og umhverfisvænni orkunýtingarstefnu en verið hefur.
Myndin er af Staale Navrud í pontu. Ljósmynd: Guðrún Tryggavdóttir.Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Stóriðjustefnan var óskynsamleg í þjóðhagslegu tilliti“, Náttúran.is: 5. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/04/storiojustefnan-var-oskynsamleg-baeoi-fyrir-nattur/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 4. febrúar 2009
breytt: 6. febrúar 2009