Blóðberg í skjóðu. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Eins og það er skemmtilegt að fara út og finna í matinn og leita ákaft að fyrstu vorjurtunum, þá er viss léttir í því fólginn að ná öllu undir þak þegar veturinn kemur. Sumir hafa safnað meira en aðrir. Sumir eiga stærri og betri geymslur með sultum, sykruðum hvannaleggjum og tejurtum. Þeir eiga rótarávexti í kaldri kompu, fjallagrasapoka og vel merkt box af frystu grænmeti í kælinum. Sumir hafa borist meira á og útbúið framandi góðmeti eins og pestó eða lagt í vín. Það er gott í vetrarbyrjun að líta svolítið yfir birgðirnar, athuga að merkingar séu í lagi, allt gleymist undrafljótt. Taka sér svo stund til að vera svolítið ánægður með sjálfan sig. Að því loknu má taka fram grasafræði- og jurtabækur, lesa sér til yfir veturinn og gera áheit um að safna eða rækta eða sérhæfa sig næsta vor.

Kvefið
Ef þú lætur það eiga sig stendur það í þrjár vikur og ef þú tekur eitthvað við því stendur það í þrjár vikur líka, sagði einhver læknisfróður. Það er samt betra að reyna, það bætir skapið og hugann og vonandi hálsinn og nefrennslið. Vandinn er sá að það er svo erfitt að lækna sjálfan sig. Sá sem er veikur þarf helst að hafa einhvern annan til að útbúa mixtúrur, bakstra og gufuseyði og dekstra sig til að taka þær. Það er stór hluti af heiluninni að fá hjálp og samúð.

Engiferrót við kvefi
Sumir kokkar segja að aldrei sé hægt að nota of mikið af engiferrót eða hvítlauk og víst er hvort tveggja hollt. Gott er að hita sneiðar af engiferrót og sítrónum í vatni og drekka við kvefi. Þetta er heilnæmur drykkur og þægilegur ef hita þarf eitthvað handa mörgum, t.d. á námskeiðum. Hann má vera annaðhvort heitur eða volgur og er alltaf hressandi. Venjulegt engiferduft, sem fæst í verslunum, er til margra hluta nytsamlegt, bætir meltingu og örvar blóðrás og bragðið venst vel ef engiferið er hrært út í jógúrt eða súrmjólk.

Hvítlaukur gegn hósta
Áður en flensa fer að herja og jafnvel eftir að hún er búin að stinga sér niður má gera hóstameðal með því að skræla hvítlauk – heil 24 rif og stinga niður í 250 g af hunangi. Láta standa í 7–10 daga og fara svo að borða úr krukkunni, ef hóstinn er þá ekki farinn, hunangið og hvítlaukinn saman. Það er svo gaman að borða þetta að manni léttir allavega við það eitt.

Fjallagrös við hósta
Í pott eru látnir tveir bollar af vatni, 1 msk af þurrkaðri kamillu og önnur af blóðbergi, 1/2 bolli af fjallagrösum, 1 stk apótekaralakkrís og góður moli af kandís eða hunangi. Suðan látin koma upp, fjallagrösin veidd upp og látið kólna í pottinum. Sigtað og sett á flöskur og geymt á köldum stað. Takið inn eins og aðra hóstasaft, hefur Steinvör Sigurðardóttir eftir ömmu sinni.

Fjallagrasamjólk við kvefi og kraftleysi
Soðinn er hnefi af grösum í bolla af vatni. Þegar suðan kemur upp er bætt í 3 bollum af mjólk og hitað að suðu. Síðan er bætt í eins miklum sykri og vill og salt á hnífsoddi. Sumir borða grösin með en aðrir sía þau frá, segir Guðrún Arna Gylfadóttir en uppskriftin er einnig komin frá ömmu hennar sem bjó í Flatey á Breiðafirði.

Hóffífilste

Muna að líta eftir hóffífli og setja á sig hvar hann vex því hann blómstrar jafnvel yfir veturinn ef vel viðrar. Af honum má gera te við hósta.

Jurtagufa

Gott er að taka stóran pott með svolitlu vatni og setja í hann þær jurtir sem maður hefur handbærar og helst mýkja öndunarfærin. Hita þetta að suðu og anda að sér jurtagufunni, það mýkir öndunarfærin. Hvítlaukur, fjallagrös og sítróna mega líka fara í pottinn, ilmolíur eins og piparminta og svo mentólkristallar, sem fást í apótekum. Uppskriftin fer eftir aðstæðum hverju sinni.

Laukur gegn kvefi
Þegar kvef er í uppsiglingu er sagt að það sé gott að hafa lauksneiðar á diski við rúmið sitt. Finnar sjóða heilan helling af lauk í mjólk og drekka við kvefi. Pólverjar setja sykur á lauksneiðar og þegar safinn fer að renna er hann tekinn inn sem hóstameðal.

Þarft nútímahúsráð gegn ofnæmi í öndunarfærum
Margir eru haldnir óþoli eða hafa ofnæmi fyrir ýmsum efnum, líka ilmefnum, sem notuð eru í hreinsivörur. Ef kvef stendur óeðlilega lengi, reynið þá að fjarlægja öll slík efni úr húsinu eða a.m.k. setja þau í vel lokuð plastbox og athugið hvort það hefur áhrif til hins betra.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.

Birt:
10. nóvember 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Að lækna sjálfan sig“, Náttúran.is: 10. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/05/lkna-sjlfan-sig/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. nóvember 2007
breytt: 10. nóvember 2014

Skilaboð: