Degi umhverfisins fagnað 25. apríl
Dagur umhverfisins verður haldinn hátíðlegur á morgun þann 25. apríl. Að þessu sinni ber daginn upp á 250 ára fæðingarafmæli náttúrufræðingsins og læknisins Sveins Pálssonar sem dagurinn er tileinkaður og bera hátíðarhöldin þeirra tímamóta nokkur merki.
Dagskráin hefst í raun daginn á undan, þ.e. þriðjudaginn 24. apríl, með málþingi um Svein Pálsson þar sem fjallað verður um hann frá ólíkum verkum hans og hugðarefnum. Að málþinginu standa Læknafélag íslands, Landgræðsla ríkisins, Mýrdalshreppur og umhverfisráðuneytið.
Eins og kunnugt er var Sveinn annálaður fræðimaður, rithöfundur, læknir og ferðagarpur sem var frumkvöðull í rannsóknum á náttúru landsins og þá sérstaklega jöklunum. Hann er talinn meðal fyrstu Íslendinganna sem vöktu athygli á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, og vegna þess var fæðingardagur hans valinn sem Dagur umhverfisins. Málþingið hefst kl. 15 í sal 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands og er öllum opið. Nánari upplýsingar má finna hér.
Á Degi umhverfisins, miðvikudaginn 25. apríl, verður hátíðarsamkoma umhverfisráðuneytisins í Listasafni Sigurjóns kl. 10:30 þar sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhendir viðurkenningar fyrir störf á sviði umhverfismála. Kuðungurinn verður veittur fyrirtæki sem hefur skarað fram úr í umhverfismálum og Varðliðar umhverfisins er viðurkenning sem veitt er grunnskólabörnum fyrir verkefni á sviði umhverfismála.
Þá verður Sveins minnst með veglegum hætti í Vík í Mýrdal, þar sem hann bjó og starfaði um áratuga skeið. Hefst dagskrá þar kl. 15, á Guðlaugsbletti, þar sem umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir mun afhjúpa minnisvarða um Svein. Að lokinni hátíðardagskrá í Félagsheimilinu Leikskálum verður farið að leiði Sveins í gamla kirkjugarðinum á Reyni en gerðar hafa verið endurbætur á legsteini Sveins auk aðkomu garðsins og nánasta umhverfi.
Ljósmynd: Á Búrfelli, ©Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Degi umhverfisins fagnað 25. apríl“, Náttúran.is: 24. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/24/degi-umhverfisins-fagnad-25-april/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.