Jólagjöfin og umbúðirnar
Jólagjöfin er tákn umhyggju og ástar og vísar til gjafa krists til mannkyns. Ástvinum okkar gefum við meðvitað eftir því lögmáli að gjöfin viðhaldi ást og vináttu.
Hátíðleiki jólanna felst að stóru leiti í barnslegri tilhlökkun okkar um að óskir geti ræst. Borðar og slaufur binda inn og innsigla leyndarmálin tímabundið. Borðinn bindur saman, tengir og afmarkar. Slaufan er tákn hinnar hátíðlegu stundar og innsiglar leyndarmálið sem afhjúpast ekki fyrr en slaufan er leyst.
Áætluð notkun á jólapappír á Íslandi eru 3-4 milljón metrar um hver jól. Skrautpappír er í fæstum tilfellum endurvinnanlegur. Litaður jólapappír með málmáprentun eða glimmeri er alls ekki endurvinnanlegur. Ofaná kemur að jólapappír hefur ákaflega stuttan líftíma, er framleiddur erlendis á óumhverfisvænan hátt og er því mengandi á öllum stigum.
Ef nauðsynlegt er að nota jólapappír er allavega umhugsunarinnar virði að fara sparlega með hann. Utan um stærri pakka er t.d. hægt að nota brúnan kraftpappír og klippa hann til, mála á hann eða skreyta á ýmsa vegu og gera þannig skemmtilega og frumlega pakka. Svo má líka nota eitthvað af ruslpóstinum og klippa hann skemmtilega saman eða flétta mismunandi auglýsingabæklinga saman (eins og jólapoka), nota efni eins og slæður, dúka, boli eða annað sem er hvort eð er hluti af gjöfinni sem innpökkunarefni. Það er svo margt skemmtilegt hægt að gera.
Sem borða og slaufur má nota hörsnæri, ullargarn eða jafnvel herrabindi, kaðal, strá eða hálm. Það er líka tilvalið að geyma jólapappír sem er enn í góðu standi milli ára. Jafnvel þó að maður sé búin að fá nóg af öllu jólastandi eftir jólin er gaman að sjá gamlan fallegan pappír og ljá honum nýtt líf um næstu jól.
Pakkaskrautið er gott að hafa úr lifandi greinum og lífrænum efnum sem ekki verða rusl til urðunar strax að lokinni hátíð ljóssins. Það er líka góður siður að láta fallegt jólatrésskraut hanga á pakkanum, eitthvað sem nota má ár eftir ár og tengist minningunni um gjöfina og gefandann. Jólin snúast jú líka að stórum hluta til um að búa til góðar minningar sem verða síðan eins og keðja góðra jólaminninga út ævina.
Efri grafík: Tré, jólapakkar og heimilsfólkið. Neðri grafík: Post jól, trénu hent, jólapappírinn orðið að rusli. Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.
-
Aðfangadagur jóla
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Jólagjöfin og umbúðirnar“, Náttúran.is: 7. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2007/12/09/jolagjofin-og-umbuoirnar/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. desember 2007
breytt: 9. desember 2014