Brönugrös. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Þetta er auðvitað upphaflega merkistíð sem „lengsti dagur ársins“, en vegna skekkju júlíanska tímatalsins hafði hann færst til um nálægt því þrjá daga miðað við sólarárið, þegar kirkjan afréð að fastsetja fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara við sólstöður vetur og sumar. Þess skal getið í leiðinni, að júní sjálfur heitir í almanaki Guðbrands Þorlákssonar nóttleysumánuður.

Jónsmessa er kennd við Jóhannes skírara, því að Jón og Jóhannes eru ekki annað en tvö afbrigði sama nafns, enda er Jóhannes fyrrum oft nefndur Jón skírari eða baptisti. Samkvæmt Nýjatestamentinu hlaut hann að hafa fæðst sex mánuðum á undan Jesú Máríusyni – og skakkar þó einum degi. Jóhannes skipar hinsvegar þann einstæða sess í hópi dýrlinga, að enginn annar á fæðingardag sinn fyrir messudag. Upptökudagur beina eða skrínalagning er ella oftast merkisdagur þeirra.

Jónsmessunóttin er ein af þeim fjórum nóttum ársins, sem magnaðastar þykja og mest trú er bundin við. Hinar eru jólanóttin, nýársnótt og þrettándanótt allar í skammdeginu. Sumt af þeim átrúnaði er sameiginlegt öllum þessum nóttum, svo sem að kýr tali, selir fari úr hömum sínum, útisetur á krossgötum gefist þá vel o.s.frv.

Úti í Evrópu höfðu menn víða þá trú, að á þessari nóttu léku illir andar lausum hala, og var gamalli miðsumarhátíð viðhaldið með skírskotun til þessa og bál kynt á hólum og hæðum svo sem vörn móti þessum ófögnuði. Engin dæmi þessa eru kunn hér á landi. Þvert á móti lítur svo út sem menn hafi fremur trúað, að tröll og aðrar óvættir svæfu á þessari nóttu öðrum fremur. Er það raunar rökrétt ályktun: þegar nóttin var björt sem dagur, geta nátttröll og aðrar ljósfælnar verur ekki verið á ferli.

Í sambandi við Jónsmessuna höfðu menn annars mesta trú varðandi steina og grös og svo döggina, sem félli þá um nóttina. Hún átti að vera svo heilnæm, að menn læknuðust af kláða og 18 öðrum óhreinindum í holdi við að velta sér í henni allsberir. Og um leið mátti óska sér.

Á Jónsmessunótt, sem er aðfaranótt 24. Júní, átti helst að vera unnt að finna svokallaða náttúrusteina. Er þar um að ræða lausnarsteina til hjálpar jóðsjúkum konum eða kúm, óskastein, varnarstein móti öllu illu, lífsteina, sem græða hvert sár, og hulinshjálmstein.
Nokkrir staðir hafa verið tilnefndir, þar sem slíkir steinar eiga að finnast, ef heppnin er með. Má þar nefna Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi, Klakk milli Kolgrafarfjarðar og Grundarfjarðar, Kofra við Álftafjörð í Ísafjarðarýslu nyrðri, Tindastól í Skagafirði upp undan Glerhallavík, Baulu í Borgarfirði o.fl.

Mjaðurt. Ljósm. Guðrún TryggvadóttirNokkrar grasategundir skal vera gott að tína á Jónsmessunótt. Þar má nefna mjaðurt til að vita, hver hefur stolið frá manni. Um hana segir svo: Tak mjaðurt sjálfa Jónsmessunótt um lágnættið, lát í munnlaug með hreint vatn. Fljóti hún, þá er það kvenmaður, sökkvi hún, þá er það drengur. Skugginn sýnir þér, hver maðurinn er. Þar við skal hafa þennan formála: “Þjófur, ég stefni þér heim aftur með þann stuld, sem þú stalst frá mér, með svo sterkri stefnu, sem Guð sjálfur stefndi Djöflinum úr Paradís í Helvíti.”

Hvítsmárablöð. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

 

Lásagras eða fjögurra laufa* smári á að ljúka upp hverri læsingu, sem það er borið að. Ein aðferð til að láta það vaxa er að taka hryssuhildir í fardögum og grafa svo sem fet í jörð niður. Sé svo vitjað um á Jónsmessunótt, munu grösin vaxin.

Klóelfting. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

 

 

Draumagras** eða grasið Grídus hjálpar mönnum til að dreyma það, sem þeim er forvitni á. Það á að taka á Jónsmessunótt, vökva í helguðu messuvíni, leggja það síðan í nýdauðs manns leiði og láta vera þar þrjár nætur. Síðan skal taka það úr moldinni og láta liggja inni í Bíblíunni hjá 63. Davíðssálmi aðrar þrjár nætur. Síðan á að geyma grasið í hveiti og hvítum dúk og leggja það undir hægri vanga, ef menn á að dreyma, hvað þá langar að vita.

Loks er brönugrasið***[Dactylorhiza maculata ssp. Islandica] sem á að taka með fjöru sjávar. Haldið var, að það vekti losta og ástir milli karla og kvenna og stillti ósamlyndi hjóna, ef þau svæfu á því. Það heitir líka hjónagras, elskugras, Friggjargras, graðrót og vinagras. Það skal hafa tvær rætur, þykka og þunna. Sú þykkari örvar kvensemi og líkamlega lysting, en grennri rótina skal gefa manni til hreinlífs.

Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.

*Getur annað hvort átt við um hvít- eða rauðsmárablöð. Myndin er af hvítsmárablöðum [Trifolium repens]. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

**Einnig kallað mánaðargras,kveisugras og tröllafingur. Ekki er gras til með þessum nöfnum skv. floraislands.is en skv. Galdrasafni á Ströndum er hér um klóelftingu að ræða [Equisetum arvense] og því birtist hér mynd af klóelftingu. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

***Sjá efstu myndina af brönugrösum.

 


    Tengdir viðburðir

  • Jónsmessa

    Staðsetning
    Óstaðsett
    Hefst
    Mánudagur 23. júní 2014 00:00
    Lýkur
    Þriðjudagur 24. júní 2014 00:00
Birt:
18. júní 2015
Höfundur:
Árni Björnsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Jónsmessan er aðfaranótt 24. júní“, Náttúran.is: 18. júní 2015 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/jnsmessa/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 16. júní 2015

Skilaboð: