Niðurstöður Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála mun hljóma ankannalega í eyrum þeirra er leið eiga framhjá Ingólfsfjalli um alla framtíð, en fyrir stuttu hlaut áframhaldandi og stóraukin efnistaka ofan af fjallinu blessun nefndarinnar. Landvernd og Náttúruverndarsamtök Suðurlands höfðu krafist ógildingu framkvæmdaleyfis þess sem hreppsnefnd Ölfuss hafði gefið fyrir efnistökunni, þvert á ráðleggingar og niðurstöður Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun sem hefur ekki lengur síðasta orðið í umhverfisósættismálum, er aðeins álitsgjafi. Valdið er hjá viðkomandi sveitarstjórnum. Bjarni Harðarson bóksali á Selfossi bendir réttilega á það í grein í Dagskránni í dag að eftir breytingarnar sé í raun komið skotleyfi á allar náttúruperlur landsins, ef bara sveitarstjórnir sjá sér hag í að nýta þær á einhvern hátt. Nú væri t.d. komið kjörið tækifæri fyrir sveitarstjórn Bláskógabyggðar að virkja Gullfoss!

Tillögur að viðbrögðum hafa þegar verið reifaðar í framhaldi af úrskurðinum. Greinarhöfundur leggur til að aðvörunarskilti verði reist við þjóðveg 1 áður en komið er að Kögunarhóli og einnig austar fyrir umferð í vesturátt, þar sem varað verði rækilega við skemmdunum á fjallinu t.d. „Aðvörun, þú nálgast nú Ingólfsfjall, skömm Suðurlands. Náttúruunnendum er ráðlegt að horfa ekki í átt til fjallsins!“ eða „Aðvörun, öll umferð fram hjá fjallinu á eigin ábyrgð.“ eða “„Aðvörun, eyðilegging leyfð vegna græðgi. Kvartanir leggist fram við hreppsnefnd Ölfuss“.
Sjá frétt á vef Landverndar um niðurstöðurnar.
-
Myndin er tekin af Þórustaðanámu í byrjun árs, nú er komið stórt skarð efst í rásinni og það mun halda áfram að stækka.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
1. desember 2006
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ingólfsfjall - Skömm Suðurlands“, Náttúran.is: 1. desember 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/ingolfsfjall_skomm/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 30. apríl 2007

Skilaboð: