Driving Sustainability ’07 - Ráðstefna um orkugjafa framtíðar
Ford Europe, MIT, California Cars Initiative, Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, franska iðnaðarráðuneytið, Íslensk Nýorka, Metan hf. og Nýsköpunarmiðstöð Íslands eru meðal þeirra sem leggja spilin á borðið og takast á um hverjir verða orkugjafar framtíðar í samgöngum á Íslandi. Ráðstefnan veitir tækifæri til að kynna sér það helsta sem er að gerast í stefnumótun og tækni í vistvænni orku fyrir farartæki og byggja upp alþjóðlegt tengslanet sérfræðinga á þessu sviði.
Á ráðstefnunni kynnir Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, stefnu ríkisstjórnarinnar og breytingar á gjöldum og fjárhagslegum hvötum sem fyrirhugaðar eru til að auka hlut vistvænna bíla og orkugjafa. Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, talar um hvernig við getum dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum og varpar fram spurningunni ,,Getur Ísland orðið forystuþjóð í vistvænni orkunotkun í samgöngum?’’ Ólafur Ragnar Grímsson, Forseti Íslands, mun opna ráðstefnuna.
Fyrsti tengitvinnbíllinn á Íslandi: Breskir sérfræðingar koma til landsins fyrir ráðstefnuna á vegum Orkustofnunar og breyta venjulegum Toyota Prius tvinnbíl í tengitvinnbíl –bíl sem stungið er í samband eins og hverju öðru “heimilistæki” Rafgeymirinn dugar í allt að 120 km akstur. Þegar rafmagnið klárast, tekur bensínvélin við. Margir sérfræðingar telja tengitvinnbíla bestu lausnina fyrir samgöngur á Íslandi.
Fyrstu etanólbílarnir á Íslandi: Volvo C30 Flexifuel og Ford C-Max Flexifuel eru fluttir til landsins af Brimborg í tengslum við ráðstefnuna. Hátt í 20% nýrra bíla sem seldir voru í Stokkhólmi árið 2006 voru vistvænir bílar, mikill meirihluti þeirra etanólbílar. Þeir losa allt að 80% minna af gróðurhúsalofttegundum.
Fyrsta sendingin af etanóleldsneyti (E85) er flutt til landsins fyrir Brimborg af Olís. Etanól er m.a. framleitt úr sykurreyr og korni og notkun þess eykst jafnt og þétt. Stór hluti bílaflota Brasilíu er knúinn etanóli og sölustaðir í Svíþjóð eru nú nærri 1000 talsins.
Gestgjafar og aðalbakhjarlar ráðstefnunnar eru Reykjavíkurborg, Landsbankinn og Icelandair. Aðrir samstarfsaðilar eru Brimborg, Orkustofnun, Sænska Sendiráðið, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Olís, Orkuveita Reykjavíkur, Viðskiptablaðið og Viðskiptaráð Íslands. Þá ný tur ráðstefnan stuðnings Iðnaðarráðuneytis, Samgönguráðuneytis og Umhverfisráðuneytis.
Atburðir tengdir vistvænum samgöngum í Samgönguviku Reykjavíkurborgar:
Ökutækjakeppni VOR / Verkfræðistofnunar H.Í. og Orkuveitunnar 14. september.
Þann 14 september fer fram ökutækjakeppni VOR / Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur. Þar munu keppa farartæki sem annars vegar ganga fyrir nýjum orkugjöfum eða eru búin nýrri tækni sem dregur úr eyðslu og losun koltvíoxíðs (s.s tvinn-, metan-, etanól-, lífdísel-, vetnis -, og rafmagnsbílar) og hins vegar bílar sem uppfylla skilgreiningu Reykjavíkurborgar og Bílgreinasambandsins um visthæfa bíla.
Sýning á visthæfum bílum í Perlunni 15-17 september.
Markmiðið með sýningunni er að búa til vettvang þar sem bifreiðaumboð geta komið á framfæri og almenningur, fjölmiðlar og áhugafólk kynnt sér þær visthæfu bifreiðar sem í boði eru á Íslandi í dag og hvers vænta má í framtíðinni. Náttúran.is mun taka þátt í sýningunni og kynna hvað vefurinn hefur fram að færa til umhverfisumræðunnar.
Ráðstefnan Driving Sustainability ´07 17-18 september
Orkugjafar framtíðarinnar og vistvænar lausnir fyrir bíla er aðalefni ráðstefnunnar Driving Sustainability ‘07. Sérfræðingar frá Íslandi, Bandaríkjunum, Sviss, Frakklandi, Danmörku og Svíþjóð munu fjalla um möguleika á innleiðingu etanóls, metans, vetnis, tvinntækni og rafmagns í samgöngum og hvernig Ísland geti orðið leiðandi á þessu sviði.
Nánari upplýsingar:
Tengitvinnbílsverkefni Orkustofnunar:
Sigurður Ingi Friðleifsson, Framkvæmdastjóri Orkuseturs Orkustofnunar. GSM: 863 6085
Etanólbílar og E-85 eldsneytið:
Egill Jóhannsson, Framkvæmdastjóri Brimborgar. GSM: 699 7600
Ráðstefnan Driving Sustainability ’07 og tengdir atburðir:
Teitur Þorkelsson, Framkvæmdastjóri Framtíðarorku ehf./Driving Sustainability ‘07
GSM: 897 1469
Heimasíða ráðstefnunnar er driving.is.
Grafík:Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is
Birt:
Tilvitnun:
Framtíðarorka „Driving Sustainability ’07 - Ráðstefna um orkugjafa framtíðar“, Náttúran.is: 21. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/21/driving-sustainability-07-rstefna-um-orkugjafa-fra/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. september 2010