Þriðjudagskvöldið 6. maí verður farið í fyrstu hjólaferð Íslenska fjallahjólaklúbbsins um borgarlandið á þessu sumri.

Lagt er af stað frá Mjóddinni, þar sem strætó stoppar, kl. 20:00 og hjólað valdar leiðir um borgina. Ferðirnar eru miðaðar við þátttöku fjölskyldufólks og hjólað til að njóta.
En um leið hefst líka keppnin um mætingarbikarinn, sem er eina hjólreiðakeppnin sem stunduð er innan raða Fjallahjólaklúbbsins.
Til þess að ná þessum eftirsótta bikar, þarf að eiga flestar mætingar í þriðjudagshjólaferðir sumarsins.

Að þessu sinni verður að sjálfsögðu hjólað frá Mjódd og í klúbbhús Íslenska fjallahjólaklúbbsins í Vesturbænum þar sem boðið verður upp á ný bakaðar vöfflur og meðlæti.
Úr Mjóddinni eru ótal skemmtilegar hjólaleiðir vestur í bæ. Hvort heldur hjólað er um Elliðarárdalinn og Sæbraut vestur í bæ, eða farið um Kópavog og Kársnesið eða einfaldlega í gegnum Fossvoginn og eftir Ægissíðustígnum sem stendur til að stækka og breikka og gera að fyrsta alvöru hjólastíg borgarinnar.

Það er vel við hæfi að fyrsta kvöldferðin er 6. maí, daginn fyrir upphaf vinsælustu hjólreiðakeppni allra landsmanna; Hjólað í vinnuna! Þetta er kjörið tækifæri til þess að minna vöðvana á hvernig þeirra vinna með hjólinu.

Hér vefnum fjallahjolaklubburinn.is er að finna nánari útlistun á starfi ferðanefndar ÍFHK í sumar. Von er á góðri þátttöku á þriðjudagskvöldið kl. 20:00 enda er þetta tíminn sem hjólin heilsa götunum eftir langa inniveru í svartasta skammdeginu. Ljósmynd: Magnús Bergsson.
Birt:
4. maí 2008
Tilvitnun:
Íslenski fjallahjólaklúbburinn „Íslenski fjallahjólaklúbburinn vaknar af vetrardvala“, Náttúran.is: 4. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/04/islenski-fjallahjolaklubburinn-vaknar-af-vetrardva/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: