Nýtt lag Bjarkar frumflutt í Víðsjá
Nýtt lag Bjarkar Guðmundsdóttur, lagið Náttúra, verður frumflutt í Ríkisútvarpinu í dag. Lagið verður selt á vefnum nattura.info og rennur allur ágóði af sölunni til nýsköpunar á sviði sjálfbærrar þróunar.
Björk og aðstandendur vefsíðunnar nattura.info, hafa í samvinnu við Háskólann í Reykjavík, staðið fyrir vinnufundum þar sem leiddir eru saman fjárfestar og iðnhönnuðir, fulltrúar atvinnuþróunarfélaga, þekkingarfélaga og háskólasetra og þeir sem hafa unnið að nýsköpun á sviði sjálfbærni og fjölbreytileika.
Markmið vinnufundanna er að tefla saman reynslu, þekkingu og hugviti ólíkra sviða, til að efla sprotafyrirtæki og nýsköpun í landinu. Vinnufundunum verða gerð skil í útvarpsþáttunum Í heyranda hljóði á þriðjudagskvöldum á Rás 1, en í viðtali í þættinum Víðsjá, sagðist Björk hafa samið lagið Náttúru sérstaklega til að hvetja til nýrrar afstöðu til náttúruauðlindanna.
Birt:
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Nýtt lag Bjarkar frumflutt í Víðsjá“, Náttúran.is: 20. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/20/nytt-lag-bjarkar-frumflutt-i-viosja/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. október 2008