Umhverfismál Tórbjörn Jacobsen, sjávarútvegsráðherra Færeyja, hefur boðið kollega sínum Einari K. Guðfinnssyni að kynna skipulag íslensks sjávarútvegs á alþjóðlegri loftslagsráðstefnu í Færeyjum sem hefst á mánudag. Al Gore, nóbelsverðlaunahafi og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, er frummælandi á ráðstefnunni.

Einar hefur þekkst boðið og segir Tórbjörn hafa óskað eftir að fá kynningu á með hvaða hætti ákvarðanir eru teknar um aflaheimildir og niðurskurð þeirra og heildarskipulag íslensks sjávarútvegs. "Ég taldi þetta heiður fyrir Íslendinga að koma þessu sjónarmiði á framfæri á ráðstefnunni sem mjög er horft til vegna komu Als Gore. Í þessu felst viðurkenning á þeirri aðferðafræði sem við byggjum sjávarútveginn á." Á ráðstefnunni verður fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á lífríki sjávar í Norður-Atlantshafi.

Al Gore dvelur á Íslandi í boði forseta Íslands í næstu viku og flytur fyrirlestur á opnum fundi um umhverfismál í Háskólabíói. Einar verður samferða nóbelsverðlaunahafanum til landsins. Spurður hvað Einar hefur hugsað sér að ræða við Gore á leiðinni segir hann ekki ólíklegt að hugmyndir Íslendinga um sjálfbæra nýtingu sem liggur íslenskum sjávarútvegi til grundvallar berist í tal. "Í því felst tækifæri þar sem hann er áhrifamikill í umhverfisumræðunni í heiminum," segir Einar.

Grafík: Ísland, Færeyjar og hafið, í vetrarbúningi, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.
Birt:
6. apríl 2008
Höfundur:
shá
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
shá „Tækifæri til að kynna sjónarmið okkar í umhverfismálum“, Náttúran.is: 6. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/06/taekifaeri-til-ao-kynna-sjonarmio-okkar-i-umhverfi/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: