Enn hefur bæst í sólarflóruna á Suðurlandi. Í kjölfar stofnun Sólar á Suðurlandi og Sólar í Flóa var nú í vikunni fundað í Rangárþingi þar sem Sólin í Rangárþingi fæddist. Baráttan um Þjórsá og andstaða heimafólks við áformaðar virkjanir i neðri hluta Þjórsár magnast þvi stig af stigi. Rökin gegn virkjununum hrannast upp, sérfræðingar kveða sér hljóðs og skýrslur eru dregnar upp á yfirborðið.

Í vikunni birtist viðtal við Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur umhverfis- og jarðfræðings og Ragnar Stefánsson jarðfræðings í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem kom skýrt fram að jarðfræðileg rök beinist gegn því að virkjanir á svæðinu geti talist öruggar. Íbúum svæðisins gæti hreinlega stafað hætta af stíflurofi ofan á þann skaða sem hlytist af uppistöðulónunum þremur sem er forsenda virkjananna.

Allt hnígur að því að undirbúningi, þó langan tíma hafi tekið, sé ábótavant og að álit jarðeðlisfræðinga eins og Páls Einarssonar um að lónin geti ekki annað en lekið hafi og séu enn látin sem vind um eyrun þjóta í herbúðum Landsvirkunar.

Söfnunarreikningur hefur verið stofnaður í Landsbanka Íslands vegna baráttunnar um Þjórsá. Reikningurinn heitir VERJUM ÞJÓRSÁ og númerið er: kt 181260 4759, banki 0120-05-075616.

Fjáröflun fer einnig fram með sölu bílrúðumiða, bola, ísskápasegla og veggspjalda. Þeir sem vilja eignast þessa muni eða selja fyrir baráttuna um Þjórsá hafi samband við hgun@simnet.is.
Þeir sem vilja bætast í hóp Sólar í Rangárþingi geta skrifað Ingibjörgu Marmundsdóttur á netfangið unnugga@simnet.is

Myndin er af einu af skiltunum sem reist hafa verið til að vekja athygli á áætlaðri hæð efsta lónsins. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
1. september 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sól í Rangárþingi - Baráttan um Þjórsá“, Náttúran.is: 1. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/01/sl-rangringi-barttan-um-jrs/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: