Á vef Landssambands kúabænda (LK) var greint frá því í gær að á undanförnu hefði LK fengið nokkrar fyrirspurnir frá neytendum um hvort og hvernig nálgast megi ógerilsneydda mjólk, „beint úr tanknum“. Þar er greint frá því að samkvæmt núgildandi lögum og reglum sé sala á ógerilsneyddri mjólk óheimil og hefur verið svo um áratuga skeið. Ógerilsneyddrar mjólkur sé þó neytt daglega á flestum, ef ekki öllum kúabúum landsins, án þess að fólki hafi orðið meint af. Einnig hefur verið bent á það, t.d. á fundum NMSM (norrænn félagsskapur um mjólkurgæðamál) að gildandi reglur hvað þetta varðar, hafi verið lítt breyttar í nær heila öld, þó að hreinlæti og aðbúnaður framleiðslunnar hafi tekið byltingarkenndum breytingum til hins betra á þeim tíma.

Er það skoðun LK  að það kunni því að vera eðlilegt að endurskoða það áhættumat sem á sínum tíma lá til grundvallar því algera banni sem nú gildir í þessu efni.  Landssamband kúabænda hefur því athugað hvaða reglur gilda um sölu á ógerilsneyddri mjólk í Danmörku, en þar er hún heimil skv. reglugerð um hreinlæti og meðferð matvæla sem er að finna hér. Kúabú sem þar vilja selja ógerilsneydda mjólk verða þó að uppfylla ákveðin skilyrði sem sett eru í reglugerðinni:

  • Þau eru m.a. að búið verður að vera algerlega laust við salmonellasmit
  • Mjólkin verður að vera komin í hendur endanlegs neytanda innan 24 klst frá mjöltum
  • Hún verður að vera kæld niður fyrir 6 °C strax eftir mjaltir.
  • Mjólkin skal uppfylla gildandi reglur um gerla- og frumutölu og í henni mega ekki finnast neinar lyfjaleyfar.
  • Mánaðarlega skal taka sýni til að tryggja að búið sé ekki sýkt af E.coli.

Í stuttu máli má segja að hefðbundin mjólkursala þarf að uppfylla allar þessar kröfur, að nr. 2 undanskilinni og ekki eru gerðar jafn tíðar kröfur um sýnatöku vegna E.coli.

Birt:
17. september 2008
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Landsamband kúabænda „Neytendur vilja ógerilsneydda mjólk“, Náttúran.is: 17. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/17/neytendur-vilja-ogerilsneydda-mjolk/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: