Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra undirrituðu stefnu um vistvæn innkaup í dag. Ríkisstjórnin samþykkti stefnuna á fundi sínum í morgun. Í stefnuninni er sagt fyrir um hvernig samþætta á umhverfissjónarmið innkaupum hjá ríkinu.

Margs konar ávinningur
Íslenska ríkið kaupir vörur, þjónustu og verk fyrir meira en 100 milljarða króna á ári sem er um fjórðungur af útgjöldum ríkisins. Með því að hafa umhverfissjónarmið til hliðsjónar við þessi innkaup, getur ríkið komið miklu til leiðar í umhverfismálum. Með skýrum kröfum um umhverfissjónarmið stuðlar ríkið að því að markaðurinn bjóði fram nýja og betri valkosti til að mæta kröfum um minna álag á umhverfið. Þar sem vitund manna um að vernda þurfi umhverfið eykst ár frá ári um heim allan, getur þessi stefna leitt af sér bættari samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á alþjóðavettvangi, bregðist markaðurinn við kröfum ríkisins um umhverfisvænni valkosti. Hagsmunir ríkisins og einkamarkaðarins, og þar með samfélagsins alls, fara því tvímælalaust saman þegar kemur að því að taka aukið tillit til umhverfisins við opinber innkaup.

Vistvæn innkaup fela í sér margs konar ávinning fyrir kaupendur, birgja og samfélagið allt. T.d. draga vistvæn innkaup úr umhverfisáhrifum, þau geta minnkað kostnað og aukið gæti og síðast en ekki síst auka vistvæn innkaup framboð á vistvænum vörum og þjónustu sem ný tist samfélaginu í heild og hvetja til nýsköpunar.

Nánari útfærsla á eldri innkaupastefnu
Í innkaupastefnu ríkisins sem samþykkt var árið 2002 segir m.a. að við innkaup skuli tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Í stefnunni sem umhverfisráðherra og fjármálaráðherra undirrituðu í dag er þessi stefna útfærð nánar svo hægt sé að vinna að markmiðinu á markvissari hátt. Grunnur innkaupastefnu ríkisins byggir á því að ávallt skuli leitast við að gera hagstæðustu kaup þar sem leitast er við að hámarka ávinning með kaupum jafnframt því að lágmarka kostnað. Með vistvænu innkaupastefnunni þurfa umhverfissjónarmið einnig að koma inn í þessa jöfnu svo þau séu einnig höfð til hliðsjónar við mat á valkostum. Þessi aðferð kallar á að þeir sem annast innkaup fyrir hönd ríkisins afli sér faglegrar þekkingu á umhverfismálum til jafns við þekkingu á innkaupamálum.

Stýrihópur og vinnuhópur vinna að innleiðingu stefnunnar
Stýrihópur um vistvæn innkaup hefur starfað um nokkurt skeið að stefnumótun um vistvæn opinber innkaup. Þar hefur verið lögð rík áhersla á samstarf ríkis og sveitarfélaga og hefur stýrihópurinn verið skipaður fulltrúum frá umhverfisráðuneytinu, Ríkiskaupum, Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ. Stefna þessi byggir á undirbúningsstarfi stýrihópsins þar sem m.a. var tekið mið af því sem best gerist á alþjóðlegum vettvangi við setningu stefnu um vistvæn opinber innkaup.

Ríkið mun nú leita eftir samstarfi við sveitarfélög um að mynda stýrihóp um vistvæn opinber innkaup. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að vinna að sameiginlegum verkefnum sem styðja við vistvæn opinber innkaup. Áhersla verður lögð á að þróa verklag og verkfæri sem gera vistvæn innkaup einföld, fagleg og aðgengileg. Í stýrihópnum eru fulltrúar frá umhverfisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og sveitarfélögunum.

Einnig verður stofnaður vinnuhópur um vistvæn innkaup ríkisins sem vinnur að verkefnum og ráðgjöf við innleiðingu vistvænna innkaupa hjá ríkisstofnunum. Áhersla er lögð á að fræða og aðstoða ríkisstofnanir við að innleiða vistvæn innkaup á faglegan og hagkvæman hátt. Í vinnhópi eru fulltrúar frá umhverfisráðuneyti og fjármálaráðuneyti.

Stýrihópur og vinnuhópur munu vinna samkvæmt aðgerðaáætlun um vistvæn opinber innkaup 2009-2012 markvisst að því að þróa og innleiða vistvæn opinber innkaup hér á landi.

Mynd: Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra undirrita stefnu um vistæn innkaup á alþjóðaráðstefnu ICLEI og Reykjavíkurborgar um vistvæn innkaup sem haldin er í Reykjavík. Mynd frá umhverfisráðuneytinu.
Birt:
28. mars 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Ríkisstjórnin samþykkir stefnu um vistvæn innkaup“, Náttúran.is: 28. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/28/rikisstjornin-samthykkir-stefnu-um-vistvaen-innkau/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: