Strandlengja Reykjavíkur er hrein og hæf sem útivistarsvæði og til að böðunar. „Niðurstöðurnar eru sérlega ánægjulegar fyrir Reykjavíkurborg og alla þá sem leggja stund á sjóböð í Nauthólsvík,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.

Valdir staðir á strandlengju Reykjavíkurborgar henta vel til útivistar og sjósund í Nauthólsvík ný tur nú mikilla vinsælda  Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vaktar strandsjóinn umhverfis Reykjavík og kynnti ráðinu niðurstöður sínar í vikunni. „Niðurstöðurnar eru afar ánægjulegar og það er mikilvægt að almenningur fái reglulega fréttir af stöðu mála og geti stundað sjóböð í þeirri fullvissu um að sjórinn sé ekki heilsuspillandi,“ segir Margrét Kr. Sverrisdóttir sem situr í minnihluta umhverfis- og samgönguráðs.

Ellefu staðir sem eru líklegir  til útivistar eru vaktaðir frá apríl til október ár hvert og sýni tekin til að kanna saurkólígerlamengun. Reglubundin vöktun hefur farið fram síðan árið 2003. Farið er eftir reglugerðum um fráveitur og skólp og mengun vatns.

Helsta uppspretta mengunar við ströndina er: ofanvatn, yfirföll dælustöðva, rangar tengingar skólplagna, náttúrlegur uppruni – fuglar og dýr, losun skólps frá skipum og smábátum.

Ylströndin í Nauthólsvík er sérstaklega vöktuð bæði af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráði, sem er rekstraraðili strandarinnar. Frá árinu 2003 hefur ylströndin skartað bláfánanum sem er tákn um það að umhverfismál við ströndina séu í góðu lagi. Niðurstöður bæði Heilbrigðiseftirlitsins og ÍTR sýna að ylströndin í Nauthólsvík hentar vel til sjóbaða.

Mynd: Sýnataka heilbrigðisfulltrúa í Nauthólsvík. Ljósmynd: Reykjavíkurborg.

Birt:
27. apríl 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Strandlengja Reykjavíkur hrein og hæf til sjóbaða“, Náttúran.is: 27. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/27/strandlengja-reykjavikur-hrein-og-haef-til-sjobaoa/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: