Í rúmt ár hefur formaður Alþjóðahvalveiðiráðsins, Bandaríkjamaðurinn, Dr. Bill Hogarth, reynt að ná deiluaðilum innan ráðsins að samningaborðinu; boðað málamiðlun sem bæði hvalveiðríkin þrjú og hvalfriðunarríki gætu sætt sig við. Árangurinn hefur verið umdeildur og er ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar f.v. sjávarútvegsráðherra um stórauknar hvalveiðar hér við land dæmi þar um.

Dr. Hogarth var skipaður af George W. Bush og fylgdi hans stefnu. Minna var vitað um hver yrði stefna Obama forseta. Í lok síðustu viku kom svo yfirlýsing frá Hvíta húsinu sem tók af öll tvímæli um stefnu Obama. Þar segir að failure to resolve these issues is not an acceptable outcome to the United States. Sem sagt, sáttaleiðin blífur. Dr. Hogarth heldur starfinu út skipunartíma sinn þrátt fyrir kröfur sumra friðunarsamtaka um að hann yrði rekinn fyrir slaka frammistöðu í hvalavernd.

Samkvæmt yfirlýsingunni áréttar Barck Obama stuðning Bandaríkjastórnar við hvalveiðibannið og hafnar veiðum í vísindaskyni (The United States continues to view the commercial whaling moratorium as a necessary conservation measure and believes that lethal scientific whaling is unnecessary in modern whale conservation management.)

Að lokum segir í yfirlýsingu Hvíta hússins að Bandaríkjastjórn hafi verulegur áhyggjur vegna aðgerða íslenskra og norskra fyrirtækja til að endurræsa alþjóðlega verslun með hvalaafurðir. (The United States also continues to have significant concerns over the recent resumption of international trade of whale meat.)

Markmið Bandaríkjastjórnar er engu að síður að ná viðunandi málamiðlun og að slík málamiðlun verði að fela í sér umtalsverðar umbætur fyrir verndun hvala. Verslun með hvalaafurðir er andstæð slíkum umbótum.

Yfirlýsing Hvíta hússins er nær samhljóma stefnu hófsamari umhverfisverndarsamtaka.  Mikilvægast er e.t.v. að Hvíta húsið undirstrikar að þótt engin málamiðlun náist á fyrirstandandi ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Madeira í júní skuldbindi Bandaríkjastjórn sig til að ná fram viðunandi málamiðlun. Því er hætt er við að Bandaríkjastjórn líti nýlegar ákvarðanir íslenskra stjórnvalda um að stórauka hvalveiðar hér við land sem tilraun til að skaða það samningsferli sem Dr. Hogarth hóf fyrir rúmu ári síðan. Embættismenn vestan hafs og austan spyrja sig líka til hvers íslensk fyrirtæki ætli annars að tvöfalda framboð á hvalkjöti á Japansmarkaði.

Í síðustu viku tók Evrópusambandið einnig eindregna afstöðu (sjá bls. 10) til stuðnings banni Alþjþóðahvalveiðiráðsins við iðnaðarhvalveiðum (commercial whaling) en lýsti samtímis yfir stuðningi við veiðar frumbyggja. Stefna Evróðpusambandsins gildir til næstu þriggja ára fyrir öll aðildarríki þess. Í fréttatilkynningu ESB kemur einnig fram að Ráðherraráðið styður það samninga- og sáttaferli sem hófs á 60. fundi Hvalveiðiráðsins í júní 2008.

Í þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti í mars 1999 um endurupptöku hvalveiða er kveðið á um fjárframlög til að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Og, vissulega hafa starfsmenn sjávarútvegsráðuneytisins staðið í stórræðum og eytt mörg hundruð milljónum fyrir málstaðinn. Á hinn bóginn, í ljósi yfirlýsinga Hvíta hússins og Ráðherraráðs ESB í síðustu viku, hlýtur sjávarútvegsráðherra að viðurkenna að kynningarherferð íslenskra stjórnvalda hefur borið næsta takmarkaðan árangur. Frekari fjárútlát fyrir Kristján Loftsson eru blátt áfram heimskuleg. Sömuleiðis hlýtur utanríkisráðherra að spurja sig hvort það sé þess virði að hafa 5 - 10 embættismenn ráðuneytisins í fullu starfi við að verja málstað Kristjáns Loftssonar þegar blóðbaðið hefst á sumri komanda; til að svara spurningum erlendra fjölmiðlar um hversu mikið af hvalkjöti Íslendingar leggi sér til munns. Eða, hversu mikilvægar hvalveiðar séu eiginlega fyrir efnahag landsins. Hvað sé eiginlega málið.
Birt:
13. mars 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Obama forseti herðir afstöðu Bandaríkjanna gegn hvalveiðum“, Náttúran.is: 13. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/12/obama-forseti-heroir-afstoou-bandarikjanna-gegn-hv/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. mars 2009

Skilaboð: