Seinnipartinn í gær var tilkynnt um mikla olíubrák innarlega á Berufirði og að megna olíulykt legði af sjónum. Umhverfisstofnun óskaði eftir því að Heilbrigðiseftirlit Austurlands færi á vettvang til að meta umfang bráðamengunar og nauðsynlegar aðgerðir.

Samkvæmt lýsingu heilbrigðisfulltrúa lá þunn olíubrák á um fjögurra til fimm kílómetra löngum kafla meðfram ströndinni sunnanmegin, en einnig greindust nokkrir flekkir úti á firðinum. Upplýst hefur verið að mengunin kemur úr togara sem fyrirtækið Salar Islandica ný tir vegna fiskeldis í firðinum.

Upplýsingar benda til að losunin hafi átt sér stað í fyrradag (þriðjudag) þegar lensað var úr togaranum en ekki var tilkynnt um mengunina. Það er niðurstaða Umhverfisstofnunar og í samræmi við álit heilbrigðisfulltrúa sem fór á vettvang að ekki sé möguleiki eða ástæða til að fara í hreinsuaðgerðir. Dreifiefni henta ekki á jafn þunna slikju auk þess sem notkun þeirra á ekki við á þessu svæði, m.a. þar sem um er að ræða fiskeldi, og slikjan er of þunn til að framkvæmanleg sé hreinsun með tækjum. Hér er um að ræða dísilolíu sem gufar upp og eyðist fljótar en í tilfelli svartolíu.

Í dag (fimmtudag) er smá vindur og bárur í sjónum sem hvort tveggja flýtir fyrir dreifingu og niðurbroti olíunnar. Umhverfisstofnun hefur kallað eftir því að lögreglan geri skýrslu um atvikið og í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um frekari aðgerðir.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands mun fylgjast með framvindunni á vettvangi í umboði stofnunarinnar.

Mynd af ust.is.
Birt:
8. maí 2008
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Olímengun í Berufirði“, Náttúran.is: 8. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/12/olimengun-i-berufiroi/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. maí 2008

Skilaboð: