Alls uppfylla 24 gerðir fólksbíla kröfur Reykjavíkurborgar um ókeypis bílastæði og athygli vekur að stærsti hlutinn eru bílar franskra framleiðenda og í yfirgnæfandi meirihluta eru þetta bílar með dísilvélar.

Þetta má lesa út úr lista sem birtur er á vef Bílgreinasambandsins.

Þær kröfur sem bensínknúnir bílar þurfa uppfylla til að fá ókeypis bílastæði eru þær að eyðsla í blönduðum akstri fari ekki yfir 5 lítra á hundraðið og koltvísýringslosun að hámarki 120 g/km.

Hvað dísilbílana varðar má eyðslan ekki fari yfir 4,5 lítra á hundraðið og koltvísýringslosun að hámarki 120 g/km. Þá má eyðsla tvíorkubíla, t.d. metan/bensín eða etanól/bensín, ekki fara yfir 5 lítra á hundraðið í blönduðum akstri.

Tveir tvinnbílar, þ.e. rafmagns-/bensíndrifnir, eru á listanum og tveir metan/bensín bílar. Sparneytnasti bíllinn á listanum er VW Polo 1,4 TDI Blue Motion sem eyðir á bilinu 3,8-4,0 lítrum á hundraðið og losar á bilinu 99-108 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn km. Minnsta koltvísýringslosunin er hins vegar frá VW Caddy Life Metan, 94 g/km.

Birt:
26. október 2008
Höfundur:
Viðskiptablaðið
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „24 bílategundir með ókeypis bílastæði í Reykjavík“, Náttúran.is: 26. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/26/24-bilategundir-meo-okeypis-bilastaeoi-i-reykjavik/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: