Ódýrara að flokka úrgang en að urða hann
Algjör stefnubreyting hefur orðið í umhverfismálum Sveitarfélagsins Hornafjarðar á síðustu
mánuðum. Haukur Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri tækni- og umhverfissviðs, segir óhætt að kalla það byltingu til hins betra. Hann er 28 ára, alinn upp á Höfn í Hornafirði en gekk í menntaskóla í Reykjavík og þar lauk hann einnig háskólaprófi í hagfræði. Þegar Hauki Inga bauðst freistandi starfstilboð á Höfn í byrjun árs 2007 ákvað fjölskyldan að flytjast þangað. Kona hans, Berglind Steiný órsdóttir, er ættuð úr héraðinu, frá Hala í Suðursveit, og það átti stóran þátt í að þau tóku af skarið.
Hin hagræna umhverfisstefna
Haukur Ingi segir að á Hala eigi þau lítinn frístundabústofn og þar sé gott að vera og vinna sveitastörfin, þótt þau eigi heima á Höfn. En hvernig skyldi þessi nýja umhverfisstefna hafa mótast í huga hagfræðingsins? „Ég fór að skoða hvað væri best fyrir samfélagsheildina í sorphirðumálum og niðurstaðan varð endurvinnsla. Bæði vegna þess að hún er ódýrari kostur fyrir sveitarfélagið þegar allt kemur til alls og eins kom í ljós að hún er hagkvæmasta leiðin í tilliti umhverfisverndar og landnýtingar. Eftir að farið var að huga að framtíð urðunarstaðar okkar Hornfirðinga snemma árs 2007 kom í ljós að með sama fyrirkomulagi myndi hann duga okkur í 5 – 10 ár ef ekkert yrði að gert. Að undirbúa nýjan urðunarstað er gríðarlega kostnaðarsamt og best er auðvitað að urðunarstaðir séu á fáum afmörkuðum svæðum. Megin markmiðin voru því að leita leiða til að draga úr urðun úrgangs.
Með því að lengja endingartíma núverandi urðunarstaðar sparast sá vaxtakostnaður af stofnkostnaði sem annars hefði fallið til við að finna nýjan stað eftir 5 – 10 ár. Þessir vextir yrðu greiddir af íbúum sveitarfélagsins á endanum svo það er samfélagslegur ávinningur að draga úr urðun,“ segir Haukur Ingi.
Í ljós kom að flokkun var ódýrari en urðun
„Allir sem ég talaði við í upphafi sögðu það deginum ljósara að það væri alltaf meiri kostnaður við að flokka úrgang en að urða hann, það er gaman að geta sýnt fram á hið gagnstæða í dag. Eftir að þetta tiltölulega einfalda markmið lá fyrir skoðuðum við hvaða leiðir eru færar í að draga úr urðun.
Tilkoma Úrvinnslusjóðs var grundvallarskilyrði fyrir því að flokkun skili sér. Úrvinnslusjóður innheimtir gjald af vöruflokkum sem fer í úrvinnslusjóð. Sveitarfélög og úrvinnsluaðilar geta svo sótt í sjóðinn með samningi við hann og sótt þangað fjármagn gegn því að sýna fram á endurvinnslu/endurnýtingu á vöruflokkunum. Þannig fær sveitarfélagið greitt fyrir að leggja fram til endurvinnslu 1 kg af bylgjupappa en við þurftum að greiða fyrir sama 1 kg fyrir tveim árum síðan auk þess sem 1 kg af ópressuðum bylgjupappa er rúmfrekur á urðunarstað þar sem hver laus rúmmetri er verðmætur. Við greiðum verktaka fyrir hvert kg af sorpi sem fer til urðunar þannig að við hvert kg sem fer til endurvinnslu af bylgjupappa t.d. sparast
urðunarkostnaður en ávinnast úrvinnslutekjur.
Auk þess sem það er gaman að geta sagt gestum okkar frá því að við hugsum vel um landið okkar og gerum okkar besta til að stuðla að bættri náttúru,“ bætir Haukir Ingi við. „Sveitarfélagið Hornafjörður er mikill ferðamannastaður og eru margar af fallegustu náttúruperlum Íslands í okkar sýslu svo þetta er einnig spurning um hvaða augum aðkomufólk sér okkur.
Lítil fyrirhöfn að breyta skipulaginu
Það er endurvinnsluaðilinn Sagaplast ehf. sem sér um flutning á endurvinnsluúrgangi fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð. Haukur Ingi segir að litlu hafi þurft að breyta við móttökustöðina við endurskipulagninguna. „Það eina sem við höfum gert er að reisa gripahús þar sem við hýsum pressu sem pressar bylgjupappír, sléttan pappír og plast. Við höfum haldið sama starfmannafjölda við móttökustöðina en breytt vinnufyrirkomulaginu; í staðin fyrir að vakta gámaportið eins og áður var gert tekur starfsmaðurinn á móti flokkuðum úrgangi og pressar hann í 140-180 kg bagga sem sendir eru til Reykjavíkur. Áður fyrr fór allur úrgangur óflokkaður í gáma og allt fór upp í sömu holuna. Stefán Sveinn Jónsson, sem er starfmaður gámaports, á heiður skilið vegna hins góða gengis við þess umbreytingu. Það skiptir miklu máli að íbúar sjái að hugsað sé vel um þennan málaflokk, það verður líka einfaldara að fá fólk með í liðið því öll stefnum við í sömu átt. Samhliða þessu hefur samstarfið við Sagaplast verið gott.
Íbúar í Sveitarfélaginu Hornafirði hafa flestir tekið virkilega vel í þetta breytta fyrirkomulag og eru gríðarlega virkir í flokkun. Við höfum reynt að bæta aðgengi íbúa að grenndarstöðvum en við teljum mikilvægt að íbúar geti losað sig við flokkað sorp á sem einfaldasta hátt. í dag erum við með 4 grenndarstöðvar í þéttbýlinu og við erum búin að koma upp 6 grenndarstöðvum í dreifbýli. Hægt er að flokka úrganginn niður í bylgjupappa, sléttan pappír, mjúkt plast, smátt brotajárn, dagblöð og tímarit. Við sækjum einnig rúllubaggaplast heim á alla bæi og sendum suður til endurvinnslu.“
Hvetjandi fyrir dreifbýlisfólk að flokka
„Sveitirnar eru frábrugðnar þéttbýlinu og þar fellur til úrgangur eins og dýrahræ og baggaplast sem ekki fellur til í eins miklu magni í þéttbýli. Þá er langt fyrir íbúa í dreifbýli að fara með mikið brotajárn sem vill safnast upp og verður oft lýti á annars fallegu bæjarstæði. Til að mæta þessari þörf verða staðsettir fjórir gámar undir lífrænan úrgang. Gámarnir verðastaðsettir í hverri sveit; Suðursveit, Mýrum, Nesjum og Lóni. Gámarnir eru rúmir 3 rúmmetrar að stærð og opnast að ofan þannig að um 4 fermetra lúga stendur manni opin. Í
þessa gáma er ætlast til að losaður verði lífrænn úrgangur sem fellur til, svo sem lausnir, lömb ef rollur láta, kálfar, kýr, hestar eða hreindýr.
Sveitarfélög eru bundin lögum að urða lífrænan úrgang sem þennan sérstaklega þannig að við erum einnig að bregðast við skyldum okkar gagnvart lögum. Við munum einnig vera með tvo opna gáma sem flakka milli sveita þar sem íbúar geta losað sig við allt stórt brotajárn, allt timbur og öll dekk sem falla til. Ofan á þetta munum við fara á hvern bæ sem óskar þess í haust og bjóðast til að losa íbúa við spilliefni svo sem rafgeyma og afgangsolíu.“ Haukur Ingi segir að nýtt fyrirkomulag til sveita muni verða bændum hagkvæmara í öllu tilliti – standi vilji þeirra til flokkunar. „Eldra fyrirkomulag í dreifbýli var þannig byggt upp að gámar voru staðsettir á 6 stöðum, allt frá Hala í Suðursveit að Jökulsá í Lóni með reglulegu millibili, einn gámur var á hverjum stað og íbúar í dreifbýli settu allt sem til féll í gámana, þegar gámarnir voru fullir þá var látið vita og gámarnir sóttir og farið með þá á urðunarstaðinn í Lóni. Að fara úr þessu fyrirkomulagi, að safna öllu saman í einn gám og urða í sömu holunni, í mjög öflugt flokkunarfyrirkomulag er ódýrara í flutninginum einum saman. Þá á eftir að taka saman allan þann sparnað sem fellur til vegna minna magns af urðuðum úrgangi.
Samhliða þessu öllu saman erum við að vinna tillögu að breyttri gjaldskrá til fyrirtækja þannig að þau hafi kost á því að lækka hjá sér urðunargjöld ef þau eru dugleg að flokka. Kerfið mun byggjast upp á því að þeir sem taka þátt í að flokka verði betur settir en áður og ég er bjartsýnn á að það geti gengið upp. Nýja gjaldskráin mun miða að því að fyrirtæki greiði eftir vigtuðu magni af blönduðum úrgangi sem það skilar frá sér. Í dag greiða fyrirtæki eftir flokkum og greiða eftir þeim. Þetta fyrirkomulag er ósanngjarnt að mínu mati sá sem er duglegur að flokka og skila af sér flokkuðum úrgangi greiðir niður fyrir þann sem ekki er eins duglegur. Markmiðið er að veita þeim fyrirtækjum sem vilja möguleika á því að lækka urðunarkostnað sinn.
Við getum tekið dæmi af aðila í ferðaþjónustu sem flokkast í gjaldflokk 3. Segjum að hann borgi í dag 70.000 á ári í urðunargjöld, sem er þá fastur kostnaður. Ef greitt verður eftir gjaldskrá per/kg þá getur fyrirtækið nýtt sér grenndarstöðvarnar og flokkað allan flokkanlegan úrgang og skilað frá sér litlu magni af blönduðum úrgangi. Fyrirtækið hefur þá möguleika á að vinna að því að lækka breytilega kostnaðinn sem áður var fastur kostnaður. Gjaldtakan verður einnig sanngjarnari því sá sem veldur hann geldur. Þetta stuðlar að minna magni af urðuðum úrgangi sem aftur lækkar urðunarkostnað og lengir líftíma urðunarstaðar auk þess sem sveitarfélagið fær greitt fyrir marga flokka eru ekki ýkja háar en þær ná þó að
greiða leigu á pressu og greiða upp stofnkostnað sem við höfum lagt út í. Mesti sparnaðurinn er fólginn í lægri kostnaði við urðun og lengingu notkunartíma urðunarstaðarins. Þetta er fjármagn sem ekki eru sýnilegt alla jafna en er nauðsynlegt að taka með í dæmið því á endanum fellur hann til. Sveitarfélagið, sem er fólkið sem í því býr, getur þá nýtt fjármagnið sem sparast í uppbyggilega starfsemi svo sem bæta aðgengi að ferðamannastöðum, bæta íþróttaaðstöðu ungmenna, efla rannsóknarvinnu og hvað sem okkur dettur í hug; eða allt annað en að sóa fjármagninu í að urða rusl.
Við höfum einnig unnið að samstarfsverkefni með sláturhúsinu Norðlenska og Skinney – Þinganesi. En þessi fyrirtæki eru gríðarlega öflug í matvælaframleiðslu og þar fellur til mikið magn af lífrænum úrgangi. Við stóðum við bakið á Norðlenska við að kaupa skilju í sláturhúsið með lánveitingu, skiljanskilur gor frá vömbum, vambirnar eru nýttar í loðdýrarækt í sveitarfélaginu. Með þessu er áætlað að urðað magn hjá Norðlenska dragist saman um 60-80 % frá því sem áður var. Enn er hægt að sýna fram á það að þessi aðferð er allra hagur, urðunarkostnaður lækkar veruleg hjá Norðlenska þar sem greitt er fyrir hvert kg af lífrænum úrgangi sem fellur til, loðdýraræktandinn fær gott fóður á hagstæðu verði og líftími urðunarstaðarins lengist. Allt styður þetta hvort annað. Hér er um að ræða um 500 tonn af úrgangi sem breytt er í verðmæti.
Nýtingarmöguleikar á lífrænum úrgangi
Hin aukna umhverfismeðvitund í sorphirðu Sveitarfélagsins Hornafjarðar virðist hafa gert það að verkum að nú er litið til frekari nýtingar á ýmsum lífrænum úrgangi sem fellur til hjá fyrirtækjum þéttbýlisins á Höfn. „Hjá Skinney – Þinganesi fellur til mikið magn af fiskúrgangi þegar fiskimjölsverksmiðjan er ekki í vinnslu,“ segir Haukur Ingi. „Þessi úrgangur er ekkert annað en lífrænn áburður fyrir bændasamfélagið. Við vinnum nú að tilraunarverkefni í samstarfi HAUST, MAST, bænda í sveitarfélaginu og Skinney – Þinganess um nýtingu á þessum áburði. Hugmyndin er aðn plægja allan þann áburð sem fellur til niður í flög, kornakra og kartöflugarða og nýta áburðargildi úr fiskbeinunum og humarskelinni. Einnig verða gerðar tilraunir með að blanda saman húsdýra- og fiskáburði og nýta svo með hefðbundnum hætti. Hér er sama sagan og áður, allir eiga að hafa hag af því að koma að samningaborðinu. Eins og áburðarverð er að þróast í dag þá getur þetta verið afar verðmæt aðferð við að endurnýta fiskúrgang. Urðunarkostnaður hjá fiskvinnslunni fellur niður, bændur geta nálgast góðan áburð og urðun dregst saman um allt að 500 tonn.
Þetta eru þó tilraunarverkefni en ég er bjartsýnn á að þau gangi upp hjá okkur og það eina sem sveitarfélagið og fyrirtækin hafa kostað
til er fundarseta. Við höfum einnig átt mjög gott samstarf við framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Helgu Hreinsdóttir, sem er gríðarlega úrræða- og tillögugóð.“
Haukur Ingi benti að lokum á að í dag er útlit fyrir að urðunarstaðurinn endist í 30-50 ár og áætlar hann að fyrirkomulagið spari sveitarfélagið um 4 m.kr á ári, en hann hefur ekki gefið sér tíma til að reikna út beinan fjárhagslegan ávinning af bættri landnýtingu á urðunarstað. Þá segir hann að ef markmið um sparnað fyrirtækja nást að fullu þá megi gera ráð fyrir um 6 m.kr hagræðingu á ári hjá fyrirtækjum. Þá er möguleg verðmætasköpun í fóðurframleiðslu í loðdýrarækt og framleiðsla á lífrænum áburði bænda þar ótalin.
Grenndargáma og móttökustöðvar í Sveitarfélaginu Hornafirði má finna hér á Endurvinnslukortinu.
Birt:
Tilvitnun:
smh „Ódýrara að flokka úrgang en að urða hann“, Náttúran.is: 28. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/28/odyrara-ao-flokka-urgang-en-ao-uroa-hann/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. apríl 2009