Í frétttatilkynningu frá umhverfishreyfingunni Saving Iceland segir: Í morgun stöðvaði 20 manna hópur Saving Iceland vinnu við byggingu álvers Norðuráls í Helguvík. Fólk læsti sig við þrjú hlið sem veita aðgang að vinnusvæðinu og stöðvaði þar af leiðandi alla umferð inn og út af því. Einnig læsti fólk sig við vinnuvélar inni á svæðinu. Álversframkvæmdirnar í Helguvík þarf að stöðva til að koma í veg fyrir frekari virkjanir jökuláa og jarðhitasvæða, sem og hinnar hnattrænu afleiðingar álframleiðslu.

Fyrir ekki svo löngu gerði ríkisstjórnin, með Össur Skarphéðinsson í fararbroddi, afsláttarsamning við Norðurál, sem skrifað var undir formlega sl. föstudag í skugga skyrslettna Saving Iceland. (1) Sá samningur gerir ráð fyrir styrkjum íslenska ríkisins til álversins í formi skattaafsláttar sem nemur um 16,2 milljónum Bandaríkjadala. Norðurál er þar með laust undan iðnaðarmálagjaldi, markaðsgjaldi og rafmagnsöryggisgjaldi, auk þess sem sérreglur munu gilda um stimpilgjöld, skipulagsgjald og upptöku nýrra skatta. (2)

Samningurinn gerir ráð fyrir 360.000 tonna álveri en umhverfismatið - gert af verkfræðistofunni HRV, einum helsta hagsmunaaðila álvers- og virkjanaframkvæmda hér á landi (3) - gerir einungis ráð fyrir 250.000 tonna framleiðslu á ári. Þar að auki hefur Norðuráli einungis hlotnast losunarheimildir fyrir 150.000 tonna framleiðslu. Þessi mismunur virðist samt ekki ætla að koma í veg fyrir að framkvæmdir 360.000 tonna álvers fari fram - ekki frekar enn fyrri daginn þegar kemur að framkvæmdum sem slíkum.

Því meiri framkvæmdir sem eiga sér stað á sem stystum tíma, því ólíklegra er að verkefnið verði stöðvað. Þess vegna hófust framkvæmdir í Helguvík löngu áður en öll tilskilin leyfi höfðu fengist fyrir starfandi álveri í þeirri stærð sem Norðurál áætlar. Orkan fyrir álverið er ekki enn á hreinu og sömu sögu má segja um orkuflutning. Svona hegðun heitir einu nafni valdníðsla og einkennir alla umræðu og framkvæmdir tengdar ál- og orkumálum hér á landi.

Virkjun Þjórsár forsenda álvers í Helguvík

Frá því að umæðan um álver í Helguvík hófst hafa umhverfissinnar á borð við Ómar Ragnarsson og Saving Iceland bent á þá augljósu staðreynd að ef jarðhitasvæðin á Reykjanesi verða virkjuð samkvæmt áætlunum munu þau þorna algjörlega upp og jafnframt að sú orka sé ekki nóg fyrir fyrirhugaða 360 þúsund tonna framleiðslu Norðuráls (4). Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra endurtók hið síðarnefnda á Alþingi í júní. (5)

Fram að þessu hefur þessum áhyggjum umhverfissinna verið svarað á þann veg að þær séu fyrst og fremst getgátur og þeir gagnrýndir fyrir að byggja ekki málflutning sinn á sterkari rökum. Yfirlýsing Landsvirkjunar um að selja ekki frekari orku til álfyrirtækja á suðvesturhorni landsins, sem þó gaf engin loforð um að virkjun Þjórsár yrði ekki að veruleika, gaf málflutningi þeirra sem sökuðu umhverfissinna um getgátur, byr undir báða vængi. (6)

Nú er hins vegar á hreinu að umhverfissinnar höfðu rétt fyrir sér; álverið í Helguvík og fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Rio Tinto-Alcan í Straumsvík, krefjast þess að Þjórsá verði virkjuð. Stöðugleikasáttmáli stjórnvalda og vinnumarkaðarins er háður því að framkvæmdirnar verði að veruleika, samkvæmt ný legri tilkynningu frá A.S.Í. og Samtökum Iðnaðarins, þar sem segir að ryðja þurfi öllum hindrunum í vegi fyrir framkvæmdunum fyrir 1. nóvember nk. (7) Nýleg ummæli Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, um hugsanlega orkusölu Landsvirkjunar til Norðuráls, færa stoðir undir þá tillögu þó hún hafi ekki enný á minnst sérstaklega á Þjórsá. Hvar annars staðar ætti orkan svo sem að koma frá? (8)

Ómarktækt blaður um umhverfisvernd sem velmegunarpólitík
Frá upphafi bankahrunsins hafa sífellt hækkað þær raddir sem segja umhverfisvernd ekki hentuga á tímum efnahagslegra þrenginga. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri Grænna, hefur nú tekið í sama streng og sagt umhverfisstefnu flokksins vera hreintrúnaðarstefnu og að ekki séu kjöraðstæður fyrir hana núna. (9) Þá er líklega síðasta vígið fallið í augum þeirra sem enn trúa á umbætur innan lýðræðiskerfisins; fólk vaknar upp af vondum draumi og áttar sig á því að það sjálft þarf að gera eitthvað í málunum. Það virðist vera byrjað að gerast ef marka má fréttir af ný legum málningaslettum á húsum auðmanna sem og háttsettra einstaklinga innan orku- og álgeirans.

Í grein sem Steingrímur skrifaði fyrir rúmlega ári síðan sagði hann m.a. að unnendur íslenskrar náttúru mættu ekki missa móðinn og bætti svo við: ,,Bestu og umhverfisvænustu virkjanakostirnir búa í hugum landsmanna, í framsækinni hugsun og opnu hugarfari.“ (10) Þessi snögglegu skoðanaskipti Steingríms eru svo sem í takt við breytta hegðun Vinstri Grænna frá því að flokkurinn komst til valda í byrjun árs. Viðvera flokksins í ríkisstjórn hefur sýnt og sannað hversu illa völd fara með fólk - eða hver raunverulegur vilji Vinstri Grænna til umhverfisverndar var þá allan tímann. Seinni möguleikinn er kannski ekki svo fjarri lagi; Kolbrúnu Halldórsdóttur var jú sparkað út fyrir það eitt að vera of heiðarlegur umhverfissinni.

Það er alltaf þörf á umhverfisvernd! Það er alltaf þörf á róttækum hugmyndum um verndun náttúrulega umhverfissins - verndun náttúrunnar, náttúrunnar vegna. Fólk má ekki blekkjast af innantómu tali um eyðileggingu náttúrunnar fyrir aukinn hagvöxt og uppbyggingu íslenskt efnahags. Voru það jú ekki sömu rök sem voru notuð til stuðnings byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers Alcoa á Reyðarfirði? Þær framkvæmdir leiddu af sér stórlegan umhverfisskaða og lýðræðishalla sem helst skildi kalla skoðanakúgun. (11) Skuldir Landsvirkjunar vegna framkvæmdanna eru gífurlegar og miðað við það hversu blygðunarlaust íslensk yfirvöld hafa fært skuldir einkavæddra banka á axlir almennings er ekkert sem bendir til þess að öðruvísi verði uppi á teningnum þegar ríkissfyrirtæki á borð við Landsvirkjun fer á hausinn.

Okkar barátta heldur áfram; gegn eyðileggingu þessarar plánetu í nafni fjárhagslegs gróða og yfirráða mannsins yfir náttúrulega umhverfinu. Náttúran er forsenda lífs og svo lengi sem vegið er gegn henni verðum við að berjast á móti.

---

Heimildir:
(1) Lögregla gengur í skrokk á konu - Fjölmiðlar taka þátt í rógburði, grein á heimasíðu Saving Iceland, http://savingiceland.puscii.nl/?p=4032&language=is
(2) Frétt á Smugunni, www.smugan.is/frettir/frettir/nr/2258
(3) HRV hefur komið að öllum helstu framkvæmdum tengdum stóriðju hér á landi. Sjá heimasíðu fyrirtækisnis, http://hrv.is/hrv/Projects/
(4) Helguvík þurrkar upp jarðhitann, frétt á Vísi.is, http://www.visir.is/article/2009763862694
(5) Frétt á Mbl.is, http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/16/ekki_til_orka_fyrir_helguvik
(6) Frétt á Mbl.is, http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/06/ekki_virkjad_til_albraedslu/
(7) Frétt á Vísi.is, http://www.visir.is/article/2009452687092
(8) Frétt á Mbl.is, http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/07/21/selur_landsvirkjun_orku_til_helguvikur/
(9) Viðtal við Steingrím J. Sigfússon í Kastljósi, fimmtudaginn 6. ágúst 2009, http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4466688/2009/08/06/0/
(10) Álhöfðunum lamið við steininn, grein eftir Steingrím J. Sigfússon, í Morgunblaðinu, 30 Júní 2008
(11) Saving Iceland fagnar táknrænum skellum á stóriðjuflokkana, grein á vefsíðu Saving Iceland, http://savingiceland.puscii.nl/?p=3871&language=is Myndin var tekin vioð hlið vinnusvæðisins að Helguvík.

Birt:
12. ágúst 2009
Höfundur:
Saving Iceland
Uppruni:
Saving Iceland
Tilvitnun:
Saving Iceland „Saving Iceland stöðvar vinnu í Helguvík“, Náttúran.is: 12. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/12/saving-iceland-stoovar-vinnu-i-helguvik/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: