Flest starfsfólk Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar eða 85% segjast taka virkan þátt í að skapa betra borgarumhverfi. 75% þeirra segjast einnig leggja metnað sinn í að vera fyrirmynd í umhverfismálum. „Ánægjulegt að sjá að starfsfólk sviðsins finnur að með verkum sínum bæti það borgarumhverfið,“ segir Ellý Katrín Guðmundsdóttir sviðsstýra.

Niðurstaðan kom fram í viðhorfskönnun meðal starfsmanna Umhverfis- og samgöngusviðs þar sem spurt var: „Í starfi mínu tek ég virkan þátt í að skapa betra borgarumhverfi“, og: „Ég legg metnað minn í að vera fyrirmynd í umhverfismálum sem starfsmaður Reykjavíkurborgar“.“

„Starfsfólk virðist finna til stolts og sannfæringar í starfi því það vill greinilega leggja sig fram um að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum,“ segir Ellý Katrín. Hún segir að niðurstaðan sé sérlega ánægjuleg vegna allra þeirra ólíku starfa sem unnin eru á sviðinu en könnunin var lögð fyrir 184 starfsmenn (143 svöruðu) sem vinna á ýmsum starfsstöðvum við garðyrkju, sorphirðu, heilbrigðiseftirlit, meindýravarnir, samgöngumál og hjá Bílastæðasjóði og á skrifstofum í Borgartúni. „Stolt starfsfólks endurspeglast að mínu mati í góðum verkum af ólíkum toga sem öll miða að því að bæta umhverfi borgarbúa,“ segir Ellý Katrín.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
25. júní 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Mikill metnaður starfsmanna í umhverfismálum “, Náttúran.is: 25. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/25/mikill-metnaour-starfsmanna-i-umhverfismalum/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: