Hvítabjörn gekk á land í Þistilfirði þann 27. janúar og var felldur klukkan 15:40. Ákvörðun um að fella björninn var tekin á grundvelli niðurstöðu starfshóps, sem í kjölfar þess að tveir hvítabirnir gengu á land árið 2008, vann skýrslu um viðbrögð við landgöngu hvítabjarna fyrir umhverfisráðherra. Niðurstaða starfshópsins var sú að fella beri hvítabirni sem ganga á land. Fyrir því eru þrenn meginrök, í fyrsta lagi öryggissjónarmið, í öðru lagi stofnstærðarrök og í þriðja lagi kostnaður við björgunaraðgerðir. Til þess að reyna björgun þurfa að vera ákjósanlegar aðstæður, s.s. að fólki standi ekki hætta af, skyggni sé gott og tryggt sé að dýrið sleppi ekki út í vatn eða sjó. Aðstæður í Þistilfirði voru ekki ákjósanlegar til þess að reyna björgun. Tekin verða sýni úr birninum til rannsókna.

Hvítabirnir eru stærstu landrándýr jarðar, stórhættulegir og óútreiknanlegir. Talið er að heimsstofn hvítabjarna telji 22.000 dýr í dag. Flesta hvítabirni er að finna í Kanada. Hvítabirnir eru á lista IUCN (Alþjóðanáttúruverndarsamtökin) yfir dýr í yfirvofandi hættu. Þrátt fyrir þetta styður hvítabjarnarráð IUCN sjálfbæra nýtingu á öllum 19 stofnum hvítabjarna. Um 800 dýr eru felld árlega.

Skýrsla starfshópsins í heild

Kort sem sýnir hvar ísbjörninn sást fyrst og hvar hann var síðan felldur.

Birt:
28. janúar 2010
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Hvítabjörn felldur“, Náttúran.is: 28. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/28/hvitabjorn-felldur/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. janúar 2010

Skilaboð: