Í kvöld var haldinn undirbúningsfundur um „Samtök um bíllausan lífsstíl“ á Kaffi Sólon en hópurinn var orðinn það stór á Facebook að tími þótti til að ganga í að undirbúa stofnun samtaka í hinum þrívíða heimi. Hópurinn sem telur nú þegar um þúsund manns hefur það sameiginlega áhugamál að vinna að því að gera bíllausan lífsstíl á höfuðborgarsvæðinu að vænlegri kosti en nú er.

Tilgangurinn er margþættur, allt frá því að hafa jákvæð áhrif á nærumhverfið og draga úr útblástursmengun og yfir það að skapa líflegra og mannvænna borgarumhverfi. Í hópnum er fólk sem bæði lifir bíllausum lífsstíl og þeir sem gjarnan vildu gera það, ef aðstæður til þess væru betri. Hópurinn er þverpólitískur, og leggur því meiri áherslu á að berjast fyrir réttindum þeirra er kjósa sér bíllausan lífsstíl fremur en sértækum og hugsanlega umdeilanlegum lausnum.

Hópurinn mun því berjast fyrir eftirfarandi atriðum:

  • að borin sé virðing fyrir almannarými á borð við gangstéttir og torg, og að sektir fyrir ólöglega lögðum faratækjum séu sambærilegar á við það sem gerist í nágrannaborgum og að sektað sé allan tíma sólarhringsins,
  • að gætt þess verði að stofnæðar trufli sem minnst nærliggjandi byggð,
  • að draga úr niðurgreiðslum til handa bílandi á formi gjaldfrjálsra bílastæða við stofnanir, verslanir og fyrirtæki, óbeinnar gjaldtöku af umferðarmannvirkjum og hverju því sem dregur úr samkeppnishæfni annarra valkosta við einkabílinn,
  • að hvetja til þess að lagðir séu göngustígar og hjólabrautir með sambærilegum metnaði og götur fyrir bíla,
  • að umferðaræðar verði skipulagðar sem breiðstræti ekki síður en hraðbrautir þar sem við á,
  • að almenningssamgöngur fái sérakreinar á stofnæðum þar sem hætta er á biðraðamyndun og töfum,
  • að lögð verði enn meiri áhersla á skjólmyndun með trjágróðri en nú er.

Hópurinn mun einnig kynna kosti þess að lifa bíllausum lífsstíl fyrir þá sem ekki gera það í dag, hvaða áhrif það hefur á líf þess og nærumhverfi og hvetja fólk til að breyta um lífsstíl eftir fremsta megni.

Sjá splunkunýjan vef samtakanna billaus.is

Grafík: Bílar, barn og maður. Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.
Birt:
21. ágúst 2008
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Samtök um bíllausan lífsstíl í burðarliðnum“, Náttúran.is: 21. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/21/samtok-um-billausan-lifsstil-i-buroarlionum/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. maí 2009

Skilaboð: