Grænt eða bara ljósgrænt?
Að eitthvað „sé grænt“ getur bæði þýtt að það sé grænt á litinn eða í nýrri merkingu orðsins að það sé „umhverfisvænt“, allavega „umhverfisvænna en annað“.
En hvar liggur línan, hver eru viðmiðin og hvenær megum við byrja að tala um að eitthvað „sé grænt“?Orðið „grænt“ er að mínu mati notað of frjálslega. Í augum hins almenna neytanda (t.d. mínum) ætti orðið „græn/grænn/grænt“ að þýða að einhversskonar gæðastimpill liggi þar að baki, eitthvað sem hægt er að treysta að sé „umhverfisvænna en annað“. Sem umhverfisverndarsinni og náttúruunnandi hef ég ákveðnar kröfur um notkun orðsins.
Hekla auglýsir um þessar mundir stíft sína „grænu bíla“ og þegar ég heyrði auglýsinguna varð ég hálf svekkt. „Grænu bílarnir“ sem Hekla er að auglýsa eru Volkswagen bílar sem fyrirtækið hefur ákveðið að kolefnisjafna í ár eftir að bíllinn er seldur.
Ég er alls ekki að draga úr ágæti framtaks Heklumanna en þetta eru um 30 milljónir sem munu verða að 800 hektara skógi að lokum, en auglýsingin er blekkjandi. Bílarnir leysa enn koltvísýring út í andrúmsloftið og þó að kolefnisjöfnunin muni bera árangur um síðir verðum við að átta okkur á því að það verður ekki fyrr en eftir að minnsta kosti 30 ár. Neytandinn gæti því haldið að með góðri samvisku gæti hann keyrt og mengað eins mikið og honum sýndist á kolefnisjöfnuðum bíl.
Birt:
Tilvitnun:
Vala Smáradóttir „Grænt eða bara ljósgrænt?“, Náttúran.is: 24. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/24/grnt-e-bara-ljsgrnt/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.