Aðgerðir til að efla sjálfbærar samgöngur
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun að hefja gerð áætlunar um sjálfbærar samgöngur með það að markmiði að draga úr þörf fyrir einkabílinn. Áætluninn verður unnin á vegum Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra og Kristjáns Möller samgönguráðherra en auk þess verður haft náið samstarf við fulltrúa fjármálaráðherra vegna breytinga sem lúta t.d. að skatta- og gjaldamálum. Þeir sem vilja ná tali af umhverfisráðherra geta haft samband við undirritaðan í síma 5458699 og 8680386.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að mörg verkefni á sviði umhverfismála kalli á skýra framtíðarsýn, nýja hugsun og stundum flóknar breytingar á laga- og reglugerðarumhverfi. Önnur verkefni séu hins vegar einfaldari í framkvæmd og mikilvægt sé að hefja nú þegar undirbúning og framkvæmd slíkra verkefna. Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að fyrstu aðgerðir komi til framkvæmda fyrir næstu áramót.
Umhverfisráðherra og samgönguráðherra eru sammála um eftirfarandi aðgerðir sem lúta að almenningssamgöngum, hjólreiðum og öðrum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda:
- Að auðvelda uppbyggingu hraðvagnakerfis með því að stuðla að aukinni forgangsröðun almannavagna í umferð auk þess sem hugað verði að því að hvetja almenning til að nota almenningssamgöngur.
- Að hvetja stofnanir og fyrirtæki til að taka upp heildstæða samgöngustefnu. Þannig verði opinber fyrirtæki og stofnanir hvött til að niðurgreiða fargjöld í strætó fyrir starfsmenn sína til að draga úr notkun einkabíls. Einnig verði skoðuð möguleg aðkoma ríkisins að verkefninu ókeypis í strætó.
- Að styðja við hjólreiðar almennings með því að leggja til breytingar á vörugjöldum á innflutningi á reiðhjólum og vara- og fylgihlutum fyrir þau.
- Að breyta reglum sem hvetja olíufélög til að blanda bensín með lífetanóli og dísilolíu með lífdísilolíu og takmarka innflutning ökutækja sem losa mikið magn gróðurhúsalofttegunda, takmarka innflutning á bílum sem ekki geta gengið fyrir íblönduðu eldsneyti.
- Að vinna með fjármálaráðuneyti að því að hraða breytingum á skattlagningu ökutækja og eldsneyti sem taki mið af umhverfissjónarmiðum.
- Að auka áróður og fræðslu um umhverfisáhrif og kostnað mismunandi samgöngukosta.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar er í samræmi við samstarfsyfirlýsingu hennar þar sem kveðið er á um að unnin verði áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin, með það að markmiði að draga úr þörf fyrir einkabílinn. Í slíkri áætlun verði almenningssamgöngur um land allt stórefldar og fólki auðveldað að komast leiðar sinnar gangandi eða á reiðhjóli. Þá verði almenningssamgöngur sjálfsagður hluti samgönguáætlunar.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Aðgerðir til að efla sjálfbærar samgöngur“, Náttúran.is: 21. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/21/aogeroir-til-ao-efla-sjalfbaerar-samgongur/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.