Íslenskir fjallaleiðsögumenn fá umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2009
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru afhent í 15. sinn í dag. Þau komu í hlut Íslenskra Fjallaleiðsögumanna fyrir markvissa umhverfisstefnu, með það að leiðarljósi að öll ferðamennska á vegum fyrirtækisins sé sjálfbær. Einnig fyrir áralanga baráttu fyrir verndun viðkvæmrar náttúru norðurslóða með hagsmuni næstu kynslóða í huga. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra afhenti verðlaunin.
Fyrirtækið Íslenskir Fjallaleiðsögumenn var stofnað árið 1994 af fjórum ungum fjallaleiðsögumönnum en hefur frá þeim tíma sameinast tveimur öðrum fyrirtækjum, Íslandsflökkurum og Icelandic Travel Market. Fyrirtækið hefur frá upphafi haft það að markmiði að auka fagmennsku og fræðslu í leiðsögn, fara ótroðnar slóðir með innlenda sem erlenda ferðamenn, kynna þeim undraheima hálendis Íslands og íslenskrar náttúru og stuðla að góðri umgengni og verndun viðkvæmrar náttúru þannig að komandi kynslóðir megi njóta hennar á sama hátt og við. Trúir þessum markmiðum, hafa Íslenskir Fjallaleiðsögumenn staðið í fararbroddi íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja í þróun nýrra ferða, umhverfismálum, menntun starfsmanna og öryggismálum.
Láta umhverfismál til sín taka á ýmsum sviðum
Íslenskir Fjallaleiðsögumenn fylgja umhverfismarkmiðum World Wildlife Fund fyrir ferðaþjónustu á heimskautasvæðum og hafa tekið þátt í samnorrænu umhverfissamstarfi FINECO varðandi sjálfbæra umgengni við náttúruna. Fyrirtækið hefur tekið virkan þátt í umræðu um náttúruvernd hérlendis sem erlendis og setið í stjórnum og ráðum sem varða umhverfisvernd og ferðamennsku. Í ferðum Fjallaleiðsögumanna er hugmyndafræði „Leave No Trace Principles“ höfð í hávegum, en það eru leiðbeinandi umgengnisvenjur um sjálfbæra ferðamennsku á ósnortnum svæðum og miðar að því að draga úr óhjákvæmilegu álagi af völdum ferðamanna. Markmiðið er að þeir sem fylgja í spor Íslenskra Fjallaleiðsögumanna sjái ekki að þar hafi aðrir verið á ferð
Íslenskir Fjallaleiðsögumenn fylgja umhverfisstefnu á skrifstofu og lager á sama hátt og úti í náttúrunni. Pappi, plast, málmar, fernur, gler, rafhlöður og lífrænt affall er endurunnið eða endurnýtt allt árið. Fyrirtækið ný tir sér almenningssamgöngur í 50-60% ferða sinna og er í góðu samstarfi við heimamenn, þar sem þeir starfa, varðandi ýmsa þjónustu, leiðsögn og gistingu.
Umhverfismál eitt af hlutverkum Ferðamálastofu
Samkvæmt lögum um ferðamál og markmiðum ferðamálaáætlunar 2006-2015 ber Ferðamálastofu að sinna umhverfismálum á ýmsan hátt. Eitt af hlutverkum stofnunarinnar er að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til ábyrgðar í umhverfismálum. Sem partur af þessari viðleitni veitir Ferðamálastofa árlega umhverfisverðlaun því fyrirtæki eða stofnun sem best þykir hafa staðið sig í umhverfismálum það árið. Verðlaunin voru fyrst veitt 1994 og er þetta því 15. árið sem þau eru veitt. Að þessu sinni fengu 27 aðilar tilnefningu til verðlaunanna.
Á meðfylgjandi mynd eru, talið frá vinstri: Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri Ferðamálastofu; Jón Gauti Jónsson, Elín S. Sigurðardóttir, Ester Ósk Traustadóttir, Leifur Örn Svavarsson og Arnar Jónsson, öll frá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum og Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála.
Sjá þau fyrirtæki/félög sem fengu tilnefningu til umhverisverðlauna Ferðamálastofu í ár.
Sjá vef Íslenskra fjallaleiðsögumanna fjallaleidsogumenn.is.
Sjá umhverfsstefnu fyrirtækisins.
Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti píramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst.
Birt:
Tilvitnun:
Ferðamálastofa „Íslenskir fjallaleiðsögumenn fá umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2009“, Náttúran.is: 20. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/20/islenskir-fjallaleiosogumenn-fa-umhverfisverolaun-/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.