Heiðursverðlaun garðyrkjunnar 2009
Jóhann Pálsson fyrrverandi garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, fékk heiðursverðlaun garðyrkjunnar 2009 afhent við hátíðlega athöfn í Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi á Sumardaginn fyrsta þ. 23. aprí sl.
Jóhann Pálsson er fæddur árið 1931 og fljótlega fór að bera á áhuga hans á ræktun hvers konar. Hann hóf þó ekki starfsferil sinn í garðyrkju heldur lauk hann burtfararprófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1952 og stundaði svo nám við Kungliga Dramatiska Teaterns elevskola veturinn 1953-1954. Hann starfaði við leiklist hjá Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur á árunum 1954-1967 en jafnframt starfaði hann um árabil á Radíoverkstæði Landsímans enda lauk hann prófi frá Loftskeytaskólanum árið 1958.
Áhuginn á gróðri og garðyrkju var þó aldrei langt undan og að afloknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1969 fór Jóhann í líffræði í Háskóla Íslands og lauk þaðan BS prófi í líffræði árið 1972. Þá lá leiðin aftur til Svíþjóðar þar sem hann stundaði doktorsnám í grasafræði við Uppsalaháskóla 1973-1979. Jóhann var forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri á árunum 1978-1985 og garðyrkjustjóri Reykjavíkur frá 1985 til 2001 þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Auk þessa hefur Jóhann unnið ýmis störf m.a. við gróðurrannsóknir og kennslu. Hann hefur fengist við ritstörf og haldið fjölda fyrirlestra um grasafræði og garðyrkju. Tómstundir Jóhanns snúast um garð- og trjárækt og hafa gert allt frá því hann var á unglingsaldri. Síðustu ár hefur Jóhann svo unnið að því að kynbæta rósir með góðum árangri.
Starfsævi Jóhanns í garðyrkju hefur verið samhliða uppgangstímum garðyrkju á Íslandi og á hann með störfum sínum sinn þátt í því að breiða út garðyrkjuna sem fag og sem áhugamál. Katrín Jakobsdóttir sagði Jóhann því vel að heiðursverðlaunum garðyrkjunnar árið 2009 kominn.
Myndin er af Jóhanni Pálssyni að lokinni verðlaunaafhendingunni. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Landbúnaðarháskóli Íslands „Heiðursverðlaun garðyrkjunnar 2009“, Náttúran.is: 6. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/06/heioursverolaun-garoyrkjunnar-2009/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.