Kennsluvefur um loftslagsbreytingar opnaður á Norræna loftslagsdeginum
Nýr kennsluvefur um loftslagsbreytingar verður opnaður í Sjálandsskóla í Garðabæ á morgun, miðvikudaginn 11. nóvember kl. 12:00. Fjölmiðlar eru hvattir til að mæta. Norræni loftslagsdagurinn verður haldinn hátíðlegur þennan dag, en hann er hluti af undirbúningi fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra mun opna kennsluvefinn, sem er hluti af námsefni um loftslagsbreytingar sem Námsgagnastofnun gefur út, með stuðningi umhverfisráðuneytisins. Efnið er þríþætt: Þemahefti, fræðslumynd og vefsíða. Hægt verður að skoða vefinn á heimasíðu Námsgagnastofnunar, www.nams.is.
Þemaheftið CO2 – framtíðin í okkar höndum, sem Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hefur tekið saman, fjallar um breytingar á loftslagi á jörðinni. Leitast er við að skoða orsakir þeirra út frá sveiflum í veðurfari, náttúruhamförum og afskiptum mannsins og hvaða áhrif loftslagsbreytingar geta haft í framtíðinni. Fjallað er um gróðurhúsaáhrifin á myndrænan hátt og skoðað hvað gert er á alþjóðlegum vettvangi til að reyna að draga úr áhrifum mengunar á jörðinni. Hver opna í bókinni fjallar um afmarkað efni sem gefur kennurum aukna möguleika á því að velja ákveðin viðfangsefni til umfjöllunar.
Fræðslumyndin Gróðurhúsaáhrif – loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar, fjallar um veðurfarsbreytingar sem hafa orðið á jörðinni, m.a. með rannsóknum á Suðurskautslandinu. Fjallað er um gróðurhúsaáhrifin og hver ábyrgð mannsins er á auknu magni gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Að lokum er farið yfir afleiðingar hlýnunar á jörðinni, verði ekkert að gert. Þýðandi er Hálfdan Ómar Hálfdanarson og þulur Jóhanna Guðrún Arnardóttir.
Á vefsíðunni CO2 – framtíðin í okkar höndum, verða meðal annars kennsluleiðbeiningar sem Helgi Grímsson skólastjóri tekur saman, krækjur og myndefni, auk verkefna sem hægt er að vinna í tengslum við efni fræðslumyndarinnar. Hana er hægt að nálgast til sýninga á vefsíðunni, auk þess sem hún verður gefin út á DVD.
Ritstjóri verksins er Sigríður Wöhler en grafíska vinnslu og umbrot annaðist PORT hönnun.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Kennsluvefur um loftslagsbreytingar opnaður á Norræna loftslagsdeginum“, Náttúran.is: 10. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/10/kennsluvefur-um-loftslagsbreytingar-opnaour-norrae/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.