Hár styrkur svifryks á nýársnótt
Styrkur svifryks í Reykjavík mældist hæstur 2.185 míkrógrömm á rúmmetra á mælistöð á ný ársnótt við Grensásveg. Á sama tíma, klukkan 1:30, mældist styrkurinn 1.260 á færanlegri mælistöð á horni Miklubrautar og Stakkahlíðar og 1.151 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum klukkan 1:00. Heilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring.
Styrkur svifryks mældist í 20. sinn á árinu 2009 yfir heilsuverndarmörkum á gamlársdag. Hann var 80 míkrógrömm á rúmmetra við Grensásveg. Allar líkur eru á að fyrsti dagur ársins 2010 mælist, sökum hás styrks í nótt, yfir heilsuverndarmörkum þegar dagurinn er á enda. Um hádegisbil 1. janúar mældist meðalgildið 403 míkrógrömm á rúmmetra við Grensásveg, 314 við Stakkahlíð og 222 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. „Þessar tölur lækka eftir því sem líður á daginn en líkur eru á að styrkurinn mælist á öllum þremur stöðvunum yfir sólarhringsmörkum en það er sjaldgæft,“ segir Anna Rósa Böðvarsdóttir heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Hinn hái styrkur svifryks á ný ársnótt, 2.185 míkrógrömm á rúmmetra, er með því hæsta sem mælst hefur í Reykjavík. Ástæðan er sú að veðrið feykti ekki menguninni frá flugeldum, blysum, brennum og skotkökum burtu heldur lág hún áfram og lengur en oft áður yfir borginni.
Samkvæmt reglugerð um loftmengun má styrkur svifryks í Reykjavík ekki mælast oftar en 7 daga yfir heilsuverndarmörkum árið 2010. Tölur yfir styrk svifryks á ný ársnótt og dag verða endanlega staðfestar strax eftir helgina.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Hár styrkur svifryks á nýársnótt“, Náttúran.is: 1. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/01/har-styrkur-svifryks-nyarsnott/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.