• Átta meginaðgerðir eiga að leiða til 19-32% minni losunar 2020
  • Minnka á losun frá samgöngum og sjávarútvegi og auka bindingu kolefnis
  • Ísland á að geta staðið við líklegar skuldbindingar til 2020

Verkefnisstjórn um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem umhverfisráðherra skipaði í júlí 2009, hefur gert fyrstu drög að áætlun, sem eru birt hér opinberlega til kynningar. Verkefnisstjórnin á að skila fullbúnum tillögum að aðgerðaáætlun 1. apríl 2010, en leggur fram drög nú til að kynna starf sitt og efla umræðu um hvaða leiðir eru vænlegastar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Mikil umræða er nú um loftslagsmál í tengslum við 15. aðildarríkjaþing Loftslagssamnings S.þ., sem haldið er í Kaupmannahöfn 7.-18. desember, en þar á að ganga frá nýju alþjóðlegu samkomulagi, sem tekur við þegar fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur 2012. Drögin varpa ljósi á þær aðgerðir sem Ísland getur helst gripið til í því skyni að uppfylla væntanlegar skuldbindingar eftir 2012.

Aðgerðaáætlun á að taka mið af langtímastefnumörkun ríkisstjórnarinnar og skuldbindingum Íslands varðandi losun gróðurhúsalofttegunda í væntanlegum nýjum alþjóðasamningi og skv. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Til grundvallar starfi verkefnisstjórnarinnar liggur auk þess skýrsla sérfræðinganefndar frá júní 2009 sem ber heitið „Möguleikar til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi“. Verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum stjórnvalda, en á að vinna að verkinu í samráði við samtök atvinnulífsins, fulltrúa atvinnugreina, umhverfisverndarsamtök og viðkomandi sérfræðistofnanir.

Samkvæmt tillögum verkefnisstjórnar um loftslagsmál verður lögð áhersla á átta meginverkefni til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi fram til 2020. Samtals eiga þau að leiða til þess að nettólosun verði 1.140-1.485 þús. tonn minni árið 2020 en væri án aðgerða. Þetta myndi þýða að losun verði um 19-32% lægri árið 2020 en hún væri miðað við spár um þróun losunar það ár án aðgerða. Veruleg óvissa er þó enný á í þessu mati á árangri. Það stafar annars vegar af óvissu um þróun losunar til 2020, einkum vegna mögulegrar nýrrar stóriðju, en hins vegar af óvissu um árangur af aðgerðum.

Þær átta aðgerðir sem verkefnisstjórnin leggur til að verði meginviðfangsefni stjórnvalda á komandi árum eru:

  • Breytt kerfi skatta og gjalda á bíla og eldsneyti og aukin fræðsla
  • Efling göngu, hjólreiða og almenningssamgangna sem valkosts í samgöngum
  • Notkun lífeldsneytis á fiskiskipaflotann
  • Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja
  • Aukin skógrækt og landgræðsla þó í samræmi við ákvæði um líffræðilegan fjölbreytileika.
  • Endurheimt votlendis
  • Innleiðing sam-evrópsks viðskiptakerfis með losunarheimildir
  • Efldar rannsóknir og nýsköpun í loftslagsmálum

Aðgerðirnar eru flestar á þremur sviðum: Samgöngum, sjávarútvegi og landnotkun. Þetta er í samræmi við niðurstöður sérfræðinganefndar, sem komst að því að árangursríkustu og hagkvæmustu aðgerðirnar eru í þessum geirum. Mestum árangri skila aðgerðir á sviði skógræktar og landgræðslu. Áhersla á þessar átta meginaðgerðir á að tryggja að íslensk stjórnvöld geti staðið við væntanlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum til 2020. Þótt þunginn í framkvæmd loftslagsstefnu verði í þessum meginaðgerðum á jafnframt að leita leiða til þess að draga úr losun í öðrum geirum, s.s. frá landbúnaði og með bættri meðferð úrgangs.

Stóriðja mun eftir 2012 falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og þarf að uppfylla skilyrði þess. Líklegt er að skuldbindingar Íslands verði tvískiptar á tímabilinu 2013-2020. Annars vegar munu stóriðja og flug falla undir sam-evrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir, þar sem draga á úr losun samtals um 21% til 2020, miðað við árið 2005. Önnur losun, þ.m.t. frá samgöngum, sjávarútvegi og landbúnaði, mun líklega þurfa að minnka um yfir 20% á tímabilinu 2005 til 2020. Verkefnisstjórn um aðgerðaáætlun telur að Ísland eigi að geta staðið við þessar skuldbindingar með virkri loftslagsstefnu, sem byggi á þessum átta meginaðgerðum. Ljóst er að binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu mun vega þyngra hjá Íslandi en hjá flestum öðrum ríkjum. Mikilvægt er fyrir Ísland að binding kolefnis sé jafn gild og samdráttur í losun til að uppfylla væntanlegar skuldbindingar. Jafnframt er ljóst að trúverðug stefna í loftslagsmálum þarf að byggja á aðgerðum til að draga úr losun, en ekki einungis kolefnisbindingu, þótt þar séu miklir möguleikar.

Verkefnisstjórn um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum mun vinna áfram á grunni meðfylgjandi draga eftir loftslagsfundinn í Kaupmannahöfn. Haft verður samráð við hagsmunaaðila og sérfræðinga til að tryggja að hægt verði að gera metnaðarfulla og raunhæfa áætlun, sem tryggi að Ísland standi við skuldbindingar sínar í náinni framtíð.

Drög að aðgerðaráætlun í loftslagsmálum (pdf skjal)

Birt:
9. desember 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Umhverfisráðuneytið kynnir drög að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum“, Náttúran.is: 9. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/09/umhverfisraouneytio-kynnir-aogeroaaaetlun-i-loftsl/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: