Kolviður er sjóður sem miðar að því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Viðskiptavinir Kolviðar kaupa kolefnisbindingu til þess jafna útblástursmengun ökutækja sinna og vegna flugferða. Reiknilíkan á vefsíðu Kolviðar býður viðskiptavinum að leggja fé í sjóðinn sem síðan fjármagnar skógræktaraðgerðir s.s. gróðursetningu trjáa á svæðum sem hafa verið gerðir langtímasamningar (90 ár) um. Sjóðurinn gerir samninga við skógrækarfélög eða verktaka um gróðursetningu og umsjón með skóginum. Þetta ferli er síðan vottað og árangursvaktað af KPMG.

Í sjónvarpsauglýsingu fyrirtækisins Netvistun er því haldið fram að vefsíður þær sem fyrirtækið framleiðir fyrir hin ýmsu fyrirtæki séu „kolefnisjafnaðar“. Þessi fullyrðing virðist ekki byggja á neinu öðru en kímnigáfu þeirra sem standa að fyrirtækinu eða þeirra sem hannaði sjónvarpsauglýsinguna.

Á vef Kolviðar er birtur listi yfir þau fyrirtæki sem hafa kolefnisjafnað kolefnislosun þá sem orsakast af ferðalögum þess, sjá listann . Ef Netvistun ehf. hefur sannarlega látið kolefnisjafna fyrirtækið stæði nafn þeirra á listanum en þó að nafn þeirra stæði á listanum og fyrirtækið hafi virkilega kolefnisjafnað bílaflota fyrirtækisins er fullyrðingin um að vefsíðurnar sem fyrirtækið framleiðir séu kolefnisjafnaðar byggð á miklum misskilningi.

Það er mikilvægt að fullyrðingar (og heimagert merki sem á að líta út eins og vottun) af þessu tagi séu ekki misnotaðar í auglýsingaskyni því slíkt virkar neikvætt og villandi á allt alvarlegt umhverfisstarf og vinnur gegn því að almenningur geti treyst því viðurkennda starfi sem vottað ferli Kolviðar í raun er. Náttúran hefur sent fyrirspurn til framkvæmdastjóra Netvistunar og mun birta skýringar á fullyrðingunni um leið og svarið berst.

Birt:
14. nóvember 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvað eru kolefnisjafnaðar vefsíður?“, Náttúran.is: 14. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/14/hvao-eru-kolefnisjafnaoar-vefsiour/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: