Staðbundin svifryksmengun í Reykjavík
Styrkur svifryks fór yfir heilsuverndarmörk á mælistöð Reykjavíkurborgar við Grensásveg bæði á laugar- og sunnudag. Svifryksmengun var hins vegar innan marka í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þar sem önnur mælistöð er staðsett. Veðurstofan spáir áfram þurrviðri, kulda og tölvuverðum vindi og því má búast við staðbundinni svifryksmengun í borginni næstu daga.
Styrkur svifryks verður um þessar mundir mestur þar sem ryk þyrlast upp á helstu umferðagötum og við opin framkvæmdasvæði. Starfsmenn Reykjavíkurborgar munu í nótt gera tilraun með að rykbinda götur (svæði) þar sem von er á að svifryk fari yfir heilsuverndarmörk.
Styrkur svifryks (PM10) mældist 119 míkrógrömm á rúmmetra laugardaginn 18. des og 82 á sunnudeginum. Heilsuverndarmörk á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Styrkurinn mældist hins vegar vægur á sama tíma í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. “Það gefur til kynna að svifryksmengunin sé staðbundinn því ryk þyrlast nú helst upp af götum og af opnum framkvæmdasvæðum,” segir Anna Rósa Böðvarsdóttir heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Búast má því við staðbundinni loftmengun næstu daga í borginni sökum veðurskilyrða. Svifryk hefur nú farið 18 sinnum yfir heilsuverndarmörk á árinu.
Grafík: Mengun í Reykjavík, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir. ©Náttúran.is
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Staðbundin svifryksmengun í Reykjavík“, Náttúran.is: 21. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/21/staobundin-svifryksmengun-i-rey/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.