Í dag boðaði umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir til blaðamannafundar til að kynna niðurstöður vísindanefndar um loftslagsbreytingar en nefndin hefur skilað ráðherra skýrslu um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi. Megin niðurstaða vísindanefndarinnar er að áhrifa loftslagsbreytinga gæti þegar í náttúru landsins og að fyrirsjáanlegar loftslagsbreytingar munu einnig hafa veruleg áhrif á náttúrufar hér á landi.
Sjá skýrsluna í heild sinni.
Sjá kynningarmyndband um skýrslu vísindanefndarinnar.

Breytingar á náttúrufari:

Veðurfar
Niðurstöður margra loftslagslíkana benda til þess að fram undir miðja öld muni hlýna um rúmlega 0,2 gráður á áratug á Íslandi. Fyrir síðari hluta aldarinnar er hlýnunin mjög háð forsendum um losun gróðurhúsalofttegunda og liggur á bilinu 1,4 til 2,4°C. Líklegast er að það hlýni mest að vetralagi en minnst á sumrin. Þótt veðurfarslíkön geri ráð fyrir aukinni úrkomu ber þeim ekki saman um hversu mikil aukningin verður. Úrkomudögum mun líklega fjölga og ákefð úrkomu aukast.

Jöklar
Allir jöklar landsins sem ekki eru beinlínis framhlaupsjöklar hafa hopað hratt á liðnum árum. Vorleysingar í ám byrja heldur fyrr og vegna aukins vatnsrennslis fæst meiri orka úr íslenskum vatnsaflsvirkjunum en ráð var fyrir gert.

Þess má vænta að jöklar hopi ört alla 21. öld og líklega rþrnar Langjökull örast stóru jöklanna. Haldi svo fram sem horfir verður hann með öllu horfinn um miðja næstu öld en Vatnajökull og Hofsjökull hörfa upp á hæstu tinda. Afrennsli frá jöklunum mun aukast mjög á fyrri hluta þessarar aldar en síðan minnka vegna stöðugrar rþrnunar þeirra.

Fiskstofnar
Útbreiðsla og stofnstærð nokkurra nytjastofna í hafinu í kringum landið hefur breyst á undanförnum árum. Vísindanefndin telur að það tengist mjög líklega þeirri hlýnun sem átt hefur sér stað í sjónum umhverfis landið frá því um 1996. Nokkrar tegundir botnfiska, s.s. þsa, lýsa, skötuselur og ufsi finnast nú norðar en áður, en loðnan sem er kaldsjávarfiskur, hefur að því er virðist hopað fyrir hlýindunum. Á undanförnun árum hafa 26 nýjar fisktegundir veiðst innan 200 sjómílna lögsögunnar, tegundir sem virðast auka útbreiðslu sína til norðurs vegna hlýinda.

Líklegast er að það hlýni á hafsvæðinu umhverfis Ísland á öldinni. Við hóflega hlýnun má búast við aukningu botnfiska á norðurmörkum útbreiðslusvæðis síns s.s. þsu, lþsu, skötusels og ufsa. Líklegt er að meira verði um kolmunna og makríl og líkur eru á að auknum göngum úr norsk-íslenska síldarstofninum inn á Íslandsmið. Hlýnun getur aftur á móti takmarkað útbreiðslusvæði og framleiðni norrænna tegunda s.s. loðnu, grálúðu og rækju, sem gæti haft neikvæð áhrif á fæðubúskap þorsks. Svo virðist sem sveiflur í ný liðun og stofnstærð þorsks séu minni hér við land en bæði í norðvestanverðu og norðaustanverðu Atlantshafi. Þetta bendir til þess að þorskurinn sé á kjörsvæði sínu hér um slóðir. Við hlýnun eru þó líkur á að uppvaxtarsvæði þorsks stækki, m.a. vegna breyttra aðstæðna við strendur Grænlands og að lirfurek til Grænlands og Grænlandsgöngur verði tíðari. Meiri hlýnun á heimskautssvæðinu en hér við land kann að hafa mikil óbein áhrif á lífríkið í sjónum við Ísland, þar sem ekki er ólíklegt að flökkustofnar eins og síld, loðna, og makríll breyti um göngur og stofnstærðir riðlist þegar nýjar lendur opnast í N-Íshafi.

Landbúnaður og gróðurfar
Áhrif hlýnunar á gróðurfar eru þegar umtalsverð. Aukning hefur orðið á gróðri á síðustu árum og áratugum og samtímis hafa skógarmörk birkis færst ofar í landið. Að minnsta kosti ein fjallaplanta sem fylgst hefur verið með, fjallkrækill, er talin á undanhaldi vegna hlýnunar. Þá hafa aðstæður til kornræktar og skógræktar batnað með hlýnandi loftslagi.

Áframhaldandi hlýnun mun almennt hafa jákvæð áhrif á gróðurþekju landsins. Útbreiðslumörk plantna færast ofar í landið en háfjallategundir geta látið undan síga. Breytingar á snjóa- og svellalögum geta haft neikvæð áhrif á tiltekin gróðurlendi, s.s. snjódældagróður og rústamýrar hálendisins.

Áhrif loftslagsbreytinga á landbúnað verða líklega að mestu leyti jákvæð. Gera má ráð fyrir aukinni uppskeru á þeim fóður og matjurtum sem nú eru ræktaðar auk þess sem nýjar nytjategundir verða mögulegar. Skógrækt ný tur góðs af væntanlegum loftslagsbreytingum og mögulegt verður að rækta trjátegundir sem verið hafa á jaðri þolsviðs síns. Loftslagsbreytingum fylgja þó einnig ógnir fyrir hefðbundinn landbúnað og skógrækt, og felast þær helst í aukinni ágengni meindýra og plöntusjúkdóma, hugsanlegum vetrarskemmdum, illviðrum og hækkun á sjávarstöðu.

Fuglategundir
Hlýnunin gerir norðlægum fuglategundum erfiðara uppdráttar, og hefur ein slík, haftyrðill, hætt varpi á Íslandi. Jafnramt fjölgar suðlægari fuglategundum sem hér reyna varp. Umhverfisbreytingar í hafinu við landið hafa valdið verulegri fækkun sjófugla.

Aukin útbreiðsla náttúrulegra birkiskóga í kjölfar hlýnunar ásamt aukinni skógrækt mun stuðla að landnámi ýmissa spörfugla og annarra skógarfugla. Framrás skóga getur á hinn bóginn þrengt að búsvæðum mófuglategunda ef ekki verður samsvarandi aukning í útbreiðslu mólendis á kostnað auðna. Samkvæmt spám er líklegt að hér verði of hlýtt í lok aldarinnar fyrir nokkrar norrænar fuglategundir s.s. þórshana og stuttnefju.

Sjávarborð
Mælingar sýna að meðalsjávarborð í Reykjavík sveiflast verulega á milli ára, en hefur farið hækkandi á undanförnum áratugum. Stór hluti skýringarinnar er landsig, en að teknu tilliti til þess fylgir sjávarborðshækkun í Reykjavík meðaltalshækkun heimshafanna sem rekja má til hlýrra loftslags.

Líklegar breytingar á sjávarstöðu á þessari öld eru háðar hnattrænni hækkun sjávar og lóðréttum hreyfingum lands. Landris við suðausturströndina getur vegið upp sjávarborðshækkun, en landsig á suðvesturhluta landsins getur aukið við hana. Talið er að hnattræn sjávarhækkun á þessari öld verði 0,2 til 0,6 metrar, en veruleg óvissa er í þessu mati og ekki hægt að útiloka enn meiri hækkun. Sjávarborðhækkun mun auka líkur á sjávarflóðum. Því telur vísindanefndin mikilvægt að vel sé fylgst með breytingum á sjávarstöðu og landsigi og að tryggt sé að skipulag byggðar á lágsvæðum sé miðað við besta mat á báðum þáttum.

Náttúruvá
Fleiri þættir en sjávarborðshækkun valda aukinni náttúruvá. Þannig gætu vetrar- og haustflóð orðið meiri samfara aukinni úrkomu og flóð gætu orðið víðar á landinu en nú er. Vorflóð gætu orðið sneggri og meiri. Reynslan sýnir að breytingar verða á hlaupum úr jaðarlónum jökla þegar þeir þynnast og geta hlaupin orðið ákafari um skeið. Farglosun vegna bráðnunar jökla lækkar bræðslumark bergs í jarðskorpunni sem eykur framleiðslu kviku og líkur á eldgosum. Líkur á jökulhlaupum sem verða vegna eldgosa undir jöklum geta því aukist.

Vísindanefndin:

Í kjölfar útgáfu fjórðu úttektar Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) skipaði Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra vísindanefnd um loftslagsbreytingar á haustdögum 2007 og fól henni að skila skýrslu um líkleg áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi.

Nefndina skipuðu:

Halldór Björnsson, haf- og veðurfræðingur, formaður.
Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, jarðfræðingur, varaformaður.
Anna Kristín Daníelsdóttir, líffræðingur.
Árni Snorrason, vatnafræðingur.
Bjarni D. Sigurðsson, skógfræðingur.
Gísli Viggósson, verkfræðingur.
Jóhann Sigurjónsson, sjávarlíffræðingur.
Snorri Baldursson, líffræðingur.
Sólveig Þorvaldsdóttir, verkfræðingur.
Trausti Jónsson, veðurfræðingur.
Ritari nefndarinnar var Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur.

Skýrsla nefndarinnar byggir að hluta á fjórðu úttekt IPCC, en einnig að verulegu leyti á rannsóknum íslenskra og erlendra vísindamanna á umhverfisbreytingum á Íslandi. Margir vísindamenn mættu á fundi nefndarinnar og kynntu rannsóknaniðurstörðu, og einnig lögðu margir vísindamenn nefndinni til efni og lásu yfir skýrsludrög.

Myndin er tekin af Þórunni Sveinbjarnardóttur á fundinum í Þjóðmenningarhúsinu. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
6. ágúst 2008
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Skýrsla vísindanefndar kynnt í Þjóðmenningarhúsinu“, Náttúran.is: 6. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/06/skyrsla-visindanefndar-kynnt-i-thjoomenningarhusin/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. ágúst 2008

Skilaboð: