Umhverfisráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir, opnaði nýja útgáfu af vef Veðurstofu Íslands í dag, á alþjóðaveðurdeginum 23. mars.

Nýja útgáfan er birtingarmynd þess að sameining Veðurstofu Íslands og Vatnamælinga Orkustofnunar er um garð gengin. Er það vel við hæfi þar sem í gær var dagur vatnsins.

Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 70 frá árinu 2008 og hefur fengið nýtt merki (lógó) sem nú birtist í fyrsta sinn á vefsetri hennar. Merkið var hannað á Vinnustofu Atla Hilmarssonar.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á vefnum. Á vefjum stofnananna beggja var mikið efni sem nú er skipulega fram sett á einum vef.

Mestu breytingarnar eru á forsíðunni en einnig eru fjölmargar breytingar á undirsíðum, bæði á kvikum síðum og textasíðum.

Efri hluta forsíðu er skipt upp í fjóra hluta: veðurspá, veðurathuganir, jarðskjálfta og vatnafar. Hver hluti tekur yfir allan efri helminginn þegar hann er valinn. Segja má að um sé að ræða fjórar forsíður.

Á veðurspárforsíðunni er vinda-, hita- og úrkomuspánum gert hærra undir höfði á kostnað staðaspákortsins sem var á forsíðunni. Þetta er gert af öryggisástæðum en á vindaspákortum er hægt að sjá hvar og hvenær stormar verða verstir. Það er oft nánast ógerlegt á staðaspákortum.

Um viðmótshönnun og útfærslu þessarar nýju útgáfu sá Helgi Borg verkfræðingur. Um útlit og vefun sá Hugsmiðjan ehf en vefurinn byggist á Eplica vefumsjónarkerfinu. Verkefnisstjórnun annaðist Vigfús Gíslason og fjölmargir starfsmenn Veðurstofunnar komu að þessum breytingum.

Leiðbeiningar eru gefnar fyrir spáforsíðu og forsíður veðurathugana, jarðhræringa og vatnafars.

Athugið að hér á vef Náttúrunnar eru veðurkort Veðurstofunnar einnig aðgengileg.

Birt:
24. mars 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Nýtt merki og ný útgáfu vefs Veðurstofunnar“, Náttúran.is: 24. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/24/nytt-merki-og-ny-utgafu-vefs-veourstofunnar/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: