Nýr skattur, kolefnisskattur, verður lagður á jarðefnaeldsneyti nái tillögur starfshóps fjármálaráðherra fram að ganga. Fjárhæð kolefnisskattsins verði 5,57 krónur á hvern lítra af bensíni og 6,45 krónur á hvern lítra af dísilolíu. Hugmyndir starfshópsins eru að skatturinn verði lagður á allt jarðefnaeldsneyti að undanskildu eldsneyti á flugvélar og skip. Fjárhæð kolefnisskatts verði endurskoðuð reglulega og taki mið af verði á kolefniskvóta eins og það er metið á kvótamarkaði Evrópusambandsins. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs muni aukast um 2.100 milljónir króna vegna þessarar breytingar en lagt er til að skattlagningin færist mikið til af ökutækjum og yfir á eldsneyti.

Samkvæmt tillögum starfshópsins er tekjum af kolefnaskattinum ráðstafað til aðgerða sem ætlað er að minnka notkun á jarðefnaeldsneytis. Starfshópurinn telur rökrétt að skoðað verði nánar hvort nýta megi hluta af auknum tekjum vegna kolefnisskattsins til að efla almenningssamgöngur með skynsamlegum hætti til að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum.

Í heild gera ofangreindar tillögur ráð fyrir tekjutilfærslu í skattlagningu af ökutækjum yfir á eldsneyti á þann hátt að heildartekjur ríkissjóðs verði því sem næst óbreyttar.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
3. júní 2008
Höfundur:
shá
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
shá „Vilja leggja á kolefnisskatt“, Náttúran.is: 3. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/03/vilja-leggja-kolefnisskatt/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: