Náttúruverndarsamtök Íslands fagna þeirri ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar að endurskoða umdeilda ákvörðun fyrirrennara síns um að leyfa veiðar á 100 hrefnum og 150 langreyðum árlega næstu fimm ár. Áður en lengra er haldið er brýnt að Alþingi og ríkisstjórn svari eftirfarandi spurningum:
  • Hvað kostar kíló af hrefnu- eða langreyðarkjöti út úr búð í Japan?
  • Hvað kostar að flytja kjötið til Japan?
  • Hvernig hyggjast útflytjendur forðast umskipun í ríkjum sem eiga aðild að CITES-samningnum um bann við verslun með dýr í útrýmingarhættu og þannig koma í veg fyrir að kjötið verði gert upptækt eða endursent (slíkt hefur gerst)?
  • Eða, hyggjast hvalkjöjtsútflytjendur senda hundruð tonna af hvalkjöti með flugfrakt beint Norðurpólinn?
  • Hvað er mikið eftir þegar flutningskostnaður hefur verið greiddur?
  • Nægir það til að greiða 2-300 ársstörf?
  • Eða, eru þetta tímabundin eða hlutastörf og hvað gera það þá mörg ársstörf?
  • Hversu mikill hluti af dýrinu er selt? Og þá hvað fer í hvað? Og hverju er hent?
  • Er til viljayfirlýsing ("letter of intent") frá japönskum kaupendum um magn á ársgrundvelli?
  • Hvernig hefur sala á hvalkjöti Í Japan þróast á s.l. 10 ár?
  • Er um söluaukningu að ræða? Eða hefur sala dregist saman?
  • Hversu miklar birgðir af hvalkjöti eru til í Japan?
  • Munu japönsk stjórnvöld einungis kaupa af íslenskum hvalveiðimönnum en ekki norskum?
  • Eru málefnaleg rök fyrir að Japan flytji inn hvalkjöt frá Íslandi en ekki Noregi?
  • Hvernig mun hvalkjötsmarkaðurinn í Japan þróast ef norskir hvalfangarar bæta við afurðum af 500 hrefnum?
Útgerðarmenn og stjórnvöld (sjávarútvegsráðherrar) hafa s.l. 20 - 25 ár talið þjóðinni trú um að hvalveiðar væru eins konar framhald á baráttu Íslendinga fyrir fullum yfirráðum yfir 200 mílna fiskveiðihagslögsögu. Þetta er rangtúlkun. Samkvæmt 65. grein Hafrétttarsáttmálans gilda um sjávarspendýr sérstakar reglur um að ríki skuli eiga samvinnu um verndun þeirra, einkum hvala.

Ísland hefur fullgilt Hafréttarsáttmálann og barist fyrir fullgildingu hans á alþjóðavettvangi. Því er hætt á að Ísland verði sakað um tvískinnung gangi ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar eftir; ákvörðun sem flest bendir til að sé fremur pólitískur gambítur og muni ekki bæta neinu við útflutningstekjur landsins.
Birt:
9. febrúar 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Spurningar sem þingmenn verða að svara “, Náttúran.is: 9. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/09/spurningar-sem-thingmenn-veroa-ao-svara/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: