Sú frétt var að berast að tveir íbúar Fljótsdalshéraðs hefðu í morgun keyrt bifreið sinni upp á sjálfan stíflugarðinn við Kárahnjúka og reist þar fánastöng og flaggað í hálfa stöng. Þeir voru að senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
-
„Við, sem Héraðsbúar, finnum okkur knúna til að mótmæla Kárahnjúkavirkjun, þrátt fyrir að framkvæmdir séu komnar svo langt sem raun ber vitni. Með því viljum við minna á að hér eystra ríkir ekki, og hefur aldrei ríkt, einróma sátt um framkvæmdirnar. Þvert á móti hafa átökin orðið eins konar heimilisböl fyrir byggðarlagið.
Þau óafturkræfu og óafsakanlegu spjöll sem unnin eru á náttúru hálendis og Héraðs eru alvarleg skerðing á lífsgæðum okkar og rétti komandi kynslóða. Skemmdarverkin eru ekki unnin í okkar þágu.
Okkur þykir leitt að hafa ekki getað staðið betur vörð um allt það sem tapast með fyllingu Hálslóns. Við vonum þó að stóriðju- og virkjanaklúðrið hér eystra verði öðrum landshlutum víti til varnaðar.
Brátt mun hverfa sá dýrðarljómi sem sveipaður hefur verið utan um framkvæmdirnar og eftir sitja stífla sem er ekkert annað en risastór minnisvarði um forheimsku og skammsýni mannanna. Sífellt fleiri bætast í hóp þeirra sem þetta sjá.
Í dag drögum við í hálfa stöng íslenskan fána fyrir deyjandi náttúru.
Aldrei aftur Kárahnjúkavirkjun!.“

Myndin er frá atburðinum í morgun.

Birt:
16. september 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Tveir Héraðsbúar staddir ofan á Kárahnjúkastíflu“, Náttúran.is: 16. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/heradsbuar_karahnj/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 11. maí 2007

Skilaboð: