Gröna bilister gefur út lista yfir umhverfisvænstu bílana í Svíþjóð
Í frétt frá Staðardagskrá 21 segir:
Í gærmorgun birtu samtökin Gröna bilister (Grænt bílafólk) í Svíþjóð árlegan lista sinn yfir umhverfisvænstu bílana á sænskum markaði. Bílum er raðað á listann eftir losun koltvísýrings (CO2) í grömmum á ekinn kílómetra. Í þeim útreikningum er ekki aðeins tekið tillit til eldsneytiseyðslu, heldur einnig losunar vegna framleiðslu og flutnings eldsneytisins. Til að komast á listann þurfa bílar að uppfylla tiltekin lágmarksskilyrði um öryggi, orkunýtingu, mengun o.fl.
Sem fyrr raða etanól- og gasbílar sér í öll efstu sætin. Ford Focus 1,8 FFV var efstur á listanum í fyrra, en fær nú félagsskap í toppsætinu af Fiat Punto 1,2 Bi-Power, sem reyndar er mun minni bíll. Fordinn gengur fyrir E85, en það er etanól með 15% íblönduðu bensíni. Fiatinn notar hins vegar gas, í þessu tilviki sænska blöndu af jarðgasi og lífgasi. Hvor bíll um sig losar 58 g af CO2 á hvern km miðað við gefnar forsendur. Umhverfisvænsti bensín- eða díselknúni bíllinn skv. listanum, í 13. sæti, er tveggja sæta smábíllinn Smart Fortwo CDI, en hann losar 98 g CO2/km. Næstur honum er efsti fullvaxni bensínsbíllinn, Toyota Prius, sem situr í 14. sæti listans með losun upp á 115 g CO2/100 km.
Birt:
Tilvitnun:
Staðardagskrá 21 „Gröna bilister gefur út lista yfir umhverfisvænstu bílana í Svíþjóð“, Náttúran.is: 5. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/05/grna-bilister-gefa-t-lista-yfir-umhverfisvnstu-bla/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.