Nú um áramótin fluttust Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins og Vatnamælingar Orkustofnunar til umhverfisráðuneytins í samræmi við breytingar sem gerðar voru á verkefnaskiptingu innan stjórnarráðsins með breytingu á lögum frá Alþingi skömmu fyrir jól. Frá sama tíma fluttist matvælasvið Umhverfisstofnunar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.

Með þessum breytingum verður umtalsverð aukning á umsvifum umhverfisráðuneytisins. Þannig fjölgar stofnunum ráðuneytisins um þrjár. Þær voru níu en verða tólf þangað til um næstu áramót þegar Veðurstofa Íslands og Vatnamælingar Orkustofnunar sameinast í eina stofnun. Við þessar breytingar fjölgar starfsmönnum á vegum ráðuneytisins úr um 280 í 470 og fjárhagsleg umsvif aukast um 20%.

Skógrækt ríkisins er þekkingar-, þróunar- og þjónustuaðili sem vinnur með og fyrir stjórnvöld, almenning og aðra hagsmunaaðila að rannsóknum, þróun, ráðgjöf og þekkingarmiðlun á sviði skógræktar.

Landgræðsla ríkisins vinnur að stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar, endurheimt landkosta, gróðureftirliti og gróðurvernd. Ennfremur að fræðslu, leiðbeiningum, rannsóknum og þróunarstarfi á þessu sviði.

Vatnamælingar munu starfa áfram fyrst um sinn sem deild innan Orkustofnunar eða þar til ný stofnun tekur yfir starfsemi Vatnamælinga og Veðurstofu Íslands. Er þegar hafinn undirbúningur að myndun hinnar nýju stofnunar í umhverfisráðuneytinu Er að því stefnt að stofnunin taki til starfa eigi síðar en 1. janúar 2009. Orkustofnun mun þannig heyra undir tvö ráðuneyti þar til ný stofnun tekur til starfa þ.e. iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti eftir því hvaða málefni stofnunarinnar eiga í hlut.

Myndin er tekin í Heiðmörk. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
3. janúar 2008
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Breytingar á verkefnum umhverfisráðuneytisins “, Náttúran.is: 3. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/03/breytingar-verkefnum-umhverfisraouneytisins/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: