Landsvirkjun vill veita hamfaraflóði vegna goss í Bárðarbungu úr farvegi Köldukvíslar um Kvíslavötn í Þjórsárver til að skemma ekki stíflu í Köldukvísl. Til að svo verði ætlar Landsvirkjun að veikja stíflu í Þúfuveri í sumar og hefur sótt um heimild til þess. Útboð hefur þegar verið auglýst.

Gísli Már Gíslason, formaður Þjórsárveranefndar og prófessor í vatnalíffræði, segir að verið sé að undirbúa viðbrögð við hugsanlegu hamfaraflóði við gos í Bárðarbungu. Hann bendir á að líkurnar á eldgosi og þar með hamfaraflóði aukist stöðugt eftir því sem ísfarginu á Vatnajökli léttir. Verði gos í Bárðarbungu geti vatnið flætt í Kvíslavötn og nú sé Landsvirkjun að tryggja það að hugsanlegt hamfaraflóð „fari örugglega“ yfir friðlandið í Þjórsárverum.

„Viðbrögð Landsvirkjunar eru þau að veikja flóðvarnirnar í einni af stíflunum í hágöngulóninu þannig að flóðið fari vestur úr í Kvíslavötn og veikja stíflurnar við Þúfuver sem er grónasta verið. Vatnið myndar þar minnst 80 ferkílómetra lón í nokkra sólarhringa með gegnumrennsli um 5.500 rúmmetra á sekúndu. Í staðinn fyrir að veikja stífluna sunnan við Syðri-Hágöngur við Köldukvísl þá er ákveðið að fórna gróðurlendi Þjórsárvera þrátt fyrir að búið sé að friða svæðið. Þetta myndi valda óafturkræfum skemmdum,“ segir hann.

Hann bendir á að hamfaraflóð af þessu tagi sé 12 til 13-föld stærð Ölfusár við Selfoss og standi í minnst fjóra til fimm sólarhringa. Lónið verði margfalt stærra en það sem sótt hafi verið um í Þjórsárverum og muni eyðileggja allan gróður. Umrótið sem verður þegar jökulár flæða yfir land í nokkra sólarhringa sé ekki lítið. "Mér finnst þetta alvarlegt mál," segir hann.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að stefnt sé að því að gera veikleika, svonefnt flóðvar, syðst í varnargörðunum við Kvíslaveitu þannig að flóðið fari þar og hlífi því sem ofar er. Eins og staðan sé í dag þá myndi hamfaraflóð rjúfa stíflur við Kvíslaveitu og fara stjórnlaust yfir Þjórsárver. Þess vegna sé sótt um að breyta stíflu við Þúfuvar til að auka öryggi mannvirkja, fólks og Þjórsárvera í heild og beina vatninu eins neðarlega og hægt er.

„Eins og staðan er í dag myndi flóðið fara inn í Kvíslaveitu og stíflurnar myndu ekki þola það. Þetta hefur verið kynnt fyrir sveitarfélögunum. Útboðið er með fyrirvara um að þetta verði heimilað.“

Mynd af thjorsarverfridland.is.

Birt:
6. maí 2008
Höfundur:
ghs
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
ghs „Hamfaraflóði verði beint yfir Þjórsárver“, Náttúran.is: 6. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/06/hamfaraflooi-veroi-beint-yfir-thjorsarver/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: