Landsvirkjun vill veita hamfaraflóði vegna goss í Bárðarbungu úr farvegi Köldukvíslar um Kvíslavötn í Þjórsárver til að skemma ekki stíflu í Köldukvísl. Til að svo verði ætlar Landsvirkjun að veikja stíflu í Þúfuveri í sumar og hefur sótt um heimild til þess. Útboð hefur þegar verið auglýst.
Gísli Már Gíslason, formaður Þjórsárveranefndar og prófessor í vatnalíffræði, segir að verið sé að undirbúa viðbrögð við hugsanlegu hamfaraflóði við gos í Bárðarbungu. Hann bendir á að líkurnar á eldgosi og þar með hamfaraflóði aukist stöðugt eftir því sem ísfarginu á Vatnajökli léttir. Verði gos í Bárðarbungu geti vatnið flætt í Kvíslavötn og nú sé Landsvirkjun að tryggja það að hugsanlegt hamfaraflóð „fari örugglega“ yfir friðlandið í Þjórsárverum.
„Viðbrögð Landsvirkjunar eru þau að veikja flóðvarnirnar í einni af stíflunum í hágöngulóninu þannig að flóðið fari vestur úr í Kvíslavötn og veikja stíflurnar við Þúfuver sem er grónasta verið. Vatnið myndar þar minnst 80 ferkílómetra lón í nokkra sólarhringa með gegnumrennsli um 5.500 rúmmetra á sekúndu. Í staðinn fyrir að veikja stífluna sunnan við Syðri-Hágöngur við Köldukvísl þá er ákveðið að fórna gróðurlendi Þjórsárvera þrátt fyrir að búið sé að friða svæðið. Þetta myndi valda óafturkræfum skemmdum,“ segir hann.