Undanfarin misseri hefur hinn kunni fjölmiðlamaður, Egill Helgason, tekið undir með öfgahægrimönnum á Íslandi og í Bandaríkjunum um að vísindalegar niðurstöður um loftslagsbreytingar séu fyrst og fremst dómsdagsspár og svartagallsraus.

Þegar tilkynnt var að Al Gore og Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) fengju friðarverðlaun Nóbels brá Egill á það ráð að kalla til Hannes Hólmstein Gissurarson til að setja sjónvarpsáhorfendur inn í þessa umræðu og má nærri geta að þar voru Gore ekki vandaðar kveðjurnar. Nú þegar Gore er væntanlegur til landsins, kallar Egill svo á Glúm Jón Björnsson sem hefur lengi verið í fararbroddi afneitunarsinna til að sannfæra sjálfan sig um að Gore væri bara „alarmisti“ í loftslagsmálum. Egill hefur mikla andúð á meintum alarmistum nema þegar hann sjálfur fjallar um islamista – þá dregur hann ekki af sér.

Glúmur Jón gat þó varla nefnt nokkuð um málflutning Al Gore sem ekki væri sannnleikanum samkvæmt en tókst þó að finna eitt atriði sem ekki er að finna í nýjustu skýrslu IPCC, sem deildi Nobelsverðlaununum með Gore. Ástæðan er einföld, í mynd Gore, „Óþægilegur sannleikur“ eru teknar með nýjustu vísindarannsóknir sem ekki hafa enn verið teknar fyrir af hálfu IPCC.

Hið ánægjulega er þó að Glúmur Jón er farinn að leggja trúnað á IPCC, sem kvað upp úr með það í fyrra að ótvírætt sé að loftslagsbreytingar eigi sér nú stað og að yfirgnæfandi (yfir 90%) líkur séu á að þær séu af mannavöldum.

Í Bandaríkjunum hefur umræðan um loftslagsbreytingar tekið stakkaskiptum en bæði Washington Post og New York Times hafa lýst Bush forseta sem áhorfanda í þeirri umræðu, ekki geranda og allir bíða eftir nýjum forseta til að breyta kúrsinum, og er þá sama hvert þeirra sigrar, Obama, Clinton eða McCain. Nú kemst forsetinn ekki lengur upp með að standa á bremsunni í þessum málaflokki því ótal fylki og borgir hafa sett sér stefnu um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þessi þróun er ekki síst Al Gore að þakka. Þeim manni er Egill kallaði loddara eða „charlatan“ í þætti sínum í gær.

Nýlega gaf The Union of Concerned Scientists út skýrslu um hvernig Exxon Mobil hefði tekist að hafa áhrif á umræðuna vestra um loftslagsbreytingar með keyptum vísindum, „Tobacco Science“ er þetta kallað því það minnir á vísindi sem tóbaksfyrirtæki keyptu til að afneita tengslum reykinga og ýmissa sjúkdóma. Skýrsluna má lesa á vefsíðu þessara samtaka, http://www.ucsusa.org/news/press_release/ExxonMobil-GlobalWarming-tobaccohtml Það eru einungis áhangendur þessara fræða sem Egill kallar til þegar hann vill ræða loftslagsbreytingar. Hver er þá loddarinn?
Birt:
8. apríl 2008
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Hver er loddarinn?“, Náttúran.is: 8. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/08/hver-er-loddarinn/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: