Margar vörur fyrir smábörn innihalda efni sem eru skaðleg umhverfi og heilsu, en sjaldnast í hættulegu magni. Þetta kemur fram í nýrri athugun Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen), þar sem m.a. voru athuguð efni í púðum, dýnum, barnavagnasvuntum og klútum af ýmsu tagi. Meðal efna sem fundust voru formaldehýð og tólúen, sem bæði eru skaðleg og hugsanlega krabbameinsvaldandi í háum styrk. Í skýrslu Miljøstyrelsen kemur fram, að þó að efnin hafi í nær öllum tilvikum verið undir viðmiðunarmörkum, þá valdi niðurstöðurnar engu að síður áhyggjum af hugsanlegum samanlögðum krónískum áhrifum við endurtekna snertingu, enda sé þessi efni víða að finna í umhverfi smábarna. Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu (IMS) ráðleggur foreldrum að þvo og viðra nýjar vörur fyrir börn áður en þær eru teknar í notkun, og jafnframt að gæta þess að börn setji ekki vörur af þessu tagi upp í sig.
Lesið frétt IMS 1. apríl sl.  
Birt:
3. apríl 2008
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Orð dagsins 3. apríl 2008“, Náttúran.is: 3. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/04/oro-dagsins-3-april-2008/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 4. apríl 2008

Skilaboð: