Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsunarstöðva
Nú þegar að umræðan um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum er farin á stjá á ný vakna spurningar um það hvað slík verksmiðja hefði í för með sér og hvað verið væri að tala um í umhverfislegu tilliti með því að planta niður olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Þá er gott að eiga fagfólk að sem að skoðar hlutina ofan í kjölinn og getur upplýst okkur um hvað felist raunverulega í slíkum hugmyndum. Stefán Gíslason umhvefisstjórnunarfræðingur sendi inn grein á strandir.is í fyrravor en greinin fjallar einmitt ítarlega um umhverfisþætti olíuhreinsunarstöðva.
1. Inngangur:„Í tilefni af umræðu síðustu daga um hugsanlega byggingu olíuhreinsistöðvar í Dýrafirði hef ég tekið saman nokkur atriði varðandi umhverfisþætti í rekstri slíkra stöðva. Samantektin byggir einkum á gögnum frá evrópsku IPPC-skrifstofunni í Sevilla (The European IPPC Bureau), en hlutverk hennar er að stuðla að miðlun upplýsinga um bestu fáanlegu tækni (Best Available Techniques (BAT)) í samræmi við Mengunarvarnatilskipun ESB nr. 96/61/EC (IPPC-tilskipunina). Kjarninn í þessu starfi skrifstofunnar er að útbúa svonefnd BREF-skjöl (BAT-Reference Documents), sem yfirvöldum í ríkjum ESB og EES ber að taka mið af við úthlutun starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi. (1) BREF-skjölunum er ætlað að upplýsa hlutaðeigandi aðila um þá valkosti sem fyrir hendi eru í tæknilegu og fjárhagslegu tilliti og eru til þess fallnir að bæta umhverfislega frammistöðu fyrirtækja í einstökum iðngreinum. Samantektin sem hér fer á eftir byggir fyrst og fremst á BREF-skjali IPPC-skrifstofunnar fyrir olíuhreinsistöðvar.
2. Helstu umhverfisþættir
Hafa ber í huga að olíuhreinsistöðvar eru iðnaðarsvæði þar sem gríðarlegt magn hráefna og framleiðsluvöru er meðhöndlað. Ferlið sjálft er mjög orkufrekt og ný tir mikið af vatni. Starfseminni fylgir óhjákvæmilega losun úrgangsefna í andrúmsloft, vatn og jarðveg. Hins vegar hafa miklar framfarir í tækni og stjórnun stöðva af þessu tagi orðið til þess að draga mjög úr neikvæðum áhrifum stöðvanna á umhverfið.
Olíuhreinsistöðvar eru að sjálfsögðu mismunandi hvað varðar framleiðslumagn og tegundir framleiðsluvöru. Í grófum dráttum er þó alltaf um svipað ferli að ræða. Þess vegna eru flestar stærðir varðandi mengun frá venjulegum rekstri slíkrar stöðvar vel þekktar. Stærstu frávikin verða í upphafi nýrrar framleiðslu, eða þegar hafist er handa við vinnslu úr nýju hráefni, þ.e.a.s. áður en reynsla er fengin af viðkomandi hráefni eða ferli.
Helstu umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva eru dregnir saman í töflu 1.
Mynd 1 gefur yfirlit yfir dæmigerðar magntölur í rekstri olíuhreinsistöðvar fyrir hvert megatonn (Mtonn = milljón tonn) af jarðolíu sem stöðin tekur til meðhöndlunar. Eins og þar kemur fram er algengt að fyrir hvert Mtonn af hráefni þurfi 470-1.500 gígawattstundir (GWst) af orku, 0,1-4,5 Mtonn af vatni og um 300 tonn af hjálparefnum.
Gert mun ráð fyrir að stöðin sem rætt er um að reisa í Dýrafirði afkasti um 8,5 megatonnum á ári. Til að finna viðmiðunartölur fyrir þá tilteknu stöð má því margfalda tölurnar í mynd 1 með 8,5
Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir einstökum umhverfisþáttum sbr. töflu 1 og stuðst við magntölur sbr. mynd 1.
1.1 Losun í andrúmsloft
Gert er ráð fyrir að fyrir hvert Mtonn sem kemur til vinnslu í olíuhreinsistöð losni 0,02-0,82 Mtonn af koltvísýringi meðan á vinnslunni stendur. Samsvarandi tölur fyrir umrædda stöð í Dýrafirði væru þá 0,17-6,97 Mtonn, miðað við afkastagetu upp á 8,5 Mtonn á ári. Þá er eftir að bæta við öðrum gróðurhúsalofttegundum og umreikna þær í koltvísýringsígildi. Almennt gildir að losunin er meiri eftir því sem ferlin í stöðinni eru fjölbreyttari.
Náttúrurverndarsamtök Íslands hafa áætlað að losun frá umræddri stöð í Dýrafirði gæti numið um 1 Mtonni af koltvísýringsígildum árlega. Þetta má teljast líkleg áætlun miðað við tölurnar hér að framan, þótt auðvitað séu skekkjumörkin víð á þessu stigi. Þetta myndi þýða að með tilkomu olíuhreinsistöðvarinnar myndi losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis aukast um 30% til viðbótar við þá 10% aukningu frá árinu 1990, sem Íslendingar hafa heimild fyrir fram til 2012 skv. Kyotobókuninni. Til samanburðar má nefna að losun frá vegasamgöngum á Íslandi var 0,667 Mtonn á árinu 2004. (3) Losunin frá hreinsistöðinni gæti því orðið allt að 50% meiri en öll losun frá vegasamgöngum. Þessi losun rúmast ekki innan þeirra losunarheimilda sem Ísland hefur skv. Kyotobókuninni, en þann vanda mætti væntanlega leysa þegar fram í sækir með kaupum á kolefniskvóta.
Eins og ráða má af mynd 1 gæti losun köfnunarefnisoxíða frá olíuhreinsistöðinni legið á bilinu 510-5.950 tonn á ári. Í reynd er hér einkum um köfnunarefnistvíoxíð að ræða, en oft losnar einnig eitthvað af hláturgasi (tvíköfnunarefnisoxíði), sem flokkast sem gróðurhúsalofttegund. Köfnunarefnisoxíð geta átt sinn þátt í súru regni, auk þess sem þau stuðla að hækkuðum styrk ósons við yfirborð jarðar þegar þau hvarfast við rokgjörn lífræn efni fyrir tilstuðlan sólarljóss. Ósón hefur margháttuð skaðleg áhrif á lífverur, dregur úr vexti plantna og veldur öndunarerfiðleikum.
Svifryk (Particulate matter (PM)) frá umræddri stöð gæti orðið á bilinu 85-25.500 tonn á ári. Lægri talan á helst við þar sem unnið er með gas að stórum hluta og þar sem settur hafa verið upp ryksíur af fullkomnustu gerð. Svifryk getur haft skaðleg áhrif á heilsu manna og nægir í því sambandi að vísa til umræðu síðustu mánuði um svifryk frá umferð í þéttbýli hérlendis. Í svifryki frá olíuhreinsistöðvum er m.a. að finna þungmálma á borð við arsenik, kvikasilfur, nikkel og vanadíum. Tvo þá síðarnefndu ætti að vera hægt að hreinsa úr útblæstri með fullkomnum síum. Magn þessara málma í jarðolíu er mjög breytilegt eftir uppruna.
Umrædd stöð myndi líklega losa um 255-51.000 tonn af brennisteinsoxíðum út í andrúmsloftið árlega. Magnið ræðst fyrst og fremst af brennisteinshlutfalli hráefnisins. Það er hvað lægst (um 0,25%) í Norðursjávarolíu, mun hærra (um 1,55%) í olíu frá Úralfjöllum og hæst (allt að 2,92%) í olíu frá Arabíuskaganum. (2) Brennisteinsoxíð leysast upp í vatni og stuðla að súru regni.
Ætla má að umrædd stöð myndi losa um 425-51.000 tonn af rokgjörnum kolvetnum (VOCs) út í andrúmsloftið árlega. Eins og fram hefur komið geta þessi efni hvarfast við köfnunarefnisoxíð og myndað óson við yfirborð jarðar. Þessu fylgir reykur sem þekkist af gulri mengunarslikju. Rokgjörn kolvetni eiga einnig að hluta til sök á lyktarvandamálum sem fylgt geta olíuhreinsistöðvum (sjá síðar).
1.2 Losun í vatn
Eins og ráða má af mynd 1 gæti magn fráveituvatns frá umræddri stöð orðið á bilinu 0,85-42,5 Mtonn á ári, enda gríðarlegt magn af vatni notað í ferlinu og til kælingar. Á leið sinni gegnum stöðina tekur vatnið í sig ýmis efni á borð við olíur, ammoníak og fenól, en virkni hreinsistöðva ræður að sjálfsögðu mestu um það hvað af þessum efnum sleppur út í umhverfið. Vatnssparnaður, endurnýting vatns og fyrirbyggjandi aðgerðir inni í stöðinni hafa einnig úrslitaáhrif hvað þetta varðar. Veðurfar hefur einnig nokkuð að segja, en þar sem úrkoma er mikil er alltaf einhver hætta á að olía berist í yfirborðsvatn. Hér má einnig nefna olíumengað vatn úr ballestum olíuflutningaskipa, en í sumum tilvikum er það tekið til hreinsunar í hreinsivirkjum olíuhreinsistöðvanna.
1.3 Fastur úrgangur
Eins og ráða má af mynd 1 gæti úrgangur frá umræddri stöð orðið á bilinu 85-17.000 tonn á ári. Þetta er í rauninni mjög lítið magn miðað við það magn hráefna sem ætlunin er að meðhöndla í stöðinni, eða í mesta lagi aðeins um 0,2% af þeim massa sem kemur til vinnslu árlega. Hins vegar flokkast líklega um 80% af þessum úrgangi sem spilliefni vegna hás hlutfalls af þungmálmum og lífrænum eiturefnum.
Í Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs (4) er gert ráð fyrir að samtals falli til um 1,6 tonn af úrgangi hérlendis á hvern íbúa á ári. Sé þessi tala yfirfærð á Ísafjarðarbæ gæti heildarmagnið þar verið rúm 6.500 tonn á ári, en tæp 12.000 tonn á Vestfjörðum öllum. Því er ekki fjarri lagi að áætla, miðað við fyrirliggjandi forsendur, að árlegt heildarmagn fasts úrgangs frá umræddri olíuhreinsistöð gæti verið svipað og sá úrgangur sem nú fellur til á Vestfjörðum. Hér er óvissuþátturinn þó mjög stór eins og mynd 1 ber með sér. Hins vegar er ljóst að hlutfall spilliefna yrði mun hærra í þessum úrgangi en þeim úrgangi sem þegar fellur til á svæðinu.
Eins og fram kemur í töflu 1 má í aðalatriðum skipta föstum úrgangi frá olíuhreinsistöðvum í þrjá flokka:
· eðja (olíukennd og önnur)
· annar vinnsluúrgangur
· almennur rekstrarúrgangur
Að jafnaði má ætla að um 45% af úrganginum sé eðja, um 35% annar vinnsluúrgangur og um 20% almennur rekstrarúrgangur. Eðjan getur verið af mismunandi uppruna. Þar er m.a. um að ræða botnfall úr tönkum og jarðolíu með tiltölulega hátt hlutfall af vatni eða jarðefnum. Stærsti hlutinn af öðrum vinnsluúrgangi er mengaður jarðvegur, en notaðir efnahvatar koma þar næst á eftir. Tæpur helmingur af því sem hér er kallað almennur rekstrarúrgangur er í raun venjulegur heimilisúrgangur frá starfsmannahaldi, en steypubrot, annar byggingarúrgangur og brotamálmar er samanlagt nokkru stærri hluti.
Olíukenndur úrgangur er vísbending um að hráefni hafi tapast í vinnslunni. Því er hvarvetna lögð mikil áhersla á að koma í veg fyrir að fastur úrgangur innihaldi olíu.
1.4 Mengun jarðvegs og grunnvatns
Mikil áhersla er hvarvetna lögð á að koma í veg fyrir að olía komist í jarðveg eða grunnvatn við olíuhreinsistöðvar. Starfseminni fylgir þó alltaf einhver áhætta á slíku, sérstaklega þar sem verið er að flytja jarðolíu eða olíumengað vatn milli staða við stöðina, svo sem úr og í geymslu. Annar úrgangur í vökvaformi getur einnig hugsanlega borist í jarðveg eða grunnvatn, svo sem efnahvatar eða vatn með öðrum uppleystum mengunarefnum.
1.5 Óþægindi
Starfsemi olíuhreinsistöðva veldur oft tilteknum óþægindum, einkum fyrir þá sem eru búsettir í nágrenninu. Kvartanir nágranna og í sumum tilvikum sveitarstjórna eru til marks um þetta. Hér er einkum átt við óþægindi á borð við hávaða, ljósagang, reyk og lykt, sem hefur bein áhrif á nærstadda.
Margir hlutar starfseminnar hafa nokkurn hávaða í för með sér. Þar má nefna hávaða frá tækjum á borð við pressur, dælur, túrbínur og loftkælibúnað. Einnig er oft kvartað undan reyk og ljósagangi um nætur, einkum vegna glæðingar (e: flaring) afgangsgasa. Lyktarvandamál eiga yfirleitt rætur að rekja til brennisteinssambanda á borð við brennisteinsvetni, þíól (mercaptan) og ýmis rokgjörn kolvetni. Þessi vandamál tengjast oft geymslu efna í stöðinni og tilteknum framleiðsluferlum, svo sem framleiðslu á tjöruefnum.
Óþægindi á borð við þau sem hér hafa verið nefnd teljast ekki til mikilvægustu umhverfisþátta í rekstri olíuhreinsistöðvar, nema helst þar sem stöðvar eru staðsettar nálægt þéttri byggð.
Dæmi eru um grunsemdir um mun alvarlegri óþægindi vegna nálægðar við olíuhreinsistöðvar. Þannig hefur tíðni hvítblæðis meðal íbúa í grennd við stærstu olíuhreinsistöð Norðurlandanna, Preemraff i Lysekil í Svíþjóð, hækkað á síðustu 10-12 árum umfram það sem vænta mætti. Þannig hafa 19 einstaklingar á svæðinu greinst með hvítblæði frá árinu 1995, en hefðu ekki átt að vera fleiri en 9 miðað við tölfræði frá öðrum svæðum. Útilokað er þó að fullyrða að þessi aukna tíðni tengist olíuhreinsistöðinni á einhvern hátt. (5)
1.6 Vinnuumhverfi
Vinnuumhverfi í fullkomnum olíuhreinsistöðvum á að geta verið þokkalegt, enda mikil áhersla lögð á það nú til dags að verja starfsmenn fyrir hvers konar óþægindum og skaða, þ.m.t. snertingu við hættuleg efni. Slys og heilsufarsvandamál í starfsemi af þessu tagi eru því mun fátíðari nú en áður. Hér hafa vandaðar leiðbeiningar og upplýsingar til starfsmanna mikið að segja.
Einhver áhætta er þó alltaf til staðar, enda unnið með hættuleg efni á borð við brennisteinsvetni, bensen, ammoníak, fenól, vetnisflúoríð, köfnunarefnisoxíð og brennisteinsoxíð.
1.7 Aðrir þættir
Landnotkun er einn þeirra umhverfisþátta sem skipta nokkru máli þegar tekin er ákvörðun um staðsetningu olíuhreinsistöðva. Landýörf fyrir starfsemi af þessu tagi er töluverð. Þannig er talið að hugsuð stöð í Dýrafirði myndi þurfa um 120 ha lands.
Einhver eld- og sprengihætta fylgir óhjákvæmilega starfsemi af þessu tagi, þar sem unnið er með milljónir tonna af eldfimum efnum árlega. Þessi hætta er þó væntanlega óveruleg í fullkomnum stöðvum. Engu að síður hafa orðið stórbrunar í olíuhreinsistöðvum erlendis. Einnig er einhver slysahætta til staðar vegna leka á fljótandi eða loftkenndum efnum frá stöðinni. Þannig þurfti að flytja 1.500-1.700 manns brott af svæði olíuhreinsistöðvar á Melköya fyrir utan Hammerfest í Norður-Noregi fyrr á þessu ári eftir að steinsteypustykki féll á tanka sem innihéldu sprengifimt og eldfimt acetþlengas. (6)
Hvar sem olía er flutt er óhjákvæmilega einhver mengunarhætta til staðar, t.d. ef olíuskipum hlekkist á. Reyndar hefur verið á það bent að mengunarhætta vegna olíuflutninga aukist ekki verulega þótt olíuhreinsistöð yrði byggð á Vestfjörðum, enda muni olíuflutningar í stórum stíl í vaxandi mæli fara um hafið umhverfis Ísland hvort sem er. Hér kemur þó fleira til. Í fyrsta lagi myndi tilkoma stöðvarinnar væntanlega leiða til meiri flutninga um umrætt hafsvæði en ella, og í öðru lagi verður að gera stóran greinarmun á mengunarhættu vegna flutninga á rúmsjó annars vegar og á grunnsævi eða í fjörðum hins vegar. Flutningur 8,5 milljóna tonna af olíu árlega inn og út úr Dýrafirði myndi vissulega hafa aukna áhættu í för með sér. Líkurnar á óhöppum eru ekki miklar, en skaðinn gæti orðið gríðarlegur, þrátt fyrir að fullkomnasti mengunarvarnarbúnaður væri til staðar. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að líkurnar á óhöppum eru mestar við aðstæður þar sem erfiðast er að koma vörnum við, þ.e. í aftakaveðrum og sjógangi.
2 Orkunotkun
Í umfjölluninni hér að framan hefur ekki verið rætt um orkunotkun sérstaklega, umfram það sem endurspeglast í umræðunni um losun gróðurhúsalofttegunda. Því er ástæða til að gera þessum þætti nokkuð nánari skil.
Olíuhreinsistöðvar nota mismikið rafmagn, en flestar notast fyrst og fremst við eigið hráefni sem orkugjafa. Fram hefur komið að umrædd stöð í Dýrafirði myndi þurfa um 15 MW af raforku, sem líklega samsvarar um 100 GWst á ári. Þetta er mjög lítil orka miðað við ætlaða árlega framleiðslu stöðvarinnar og reyndar mun minna en gert er ráð fyrir í mynd 1. Þótt rétt sé með farið er olíuhreinsun engu að síður undantekningarlaust mjög orkufrekur iðnaður. Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að einungis litlu broti af orkuþörf stöðvar af þessu tagi er mætt með aðkeyptri raforku, þar sem langstærstur hluti orkunnar er fenginn úr hráefninu sjálfu, þ.e.a.s. innfluttu jarðefnaeldsneyti. Þetta skýrir mikla losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni, en eins og fram hefur komið má ætla að hún verði um 50% meiri en losun frá öllum vegasamgöngum á Íslandi.
Raforkuþörf stöðvarinnar er afstæð stærð, eftir því við hvað er miðað. Þannig samsvarar raforkuþörf upp á 15 MW u.þ.b. 115% af uppsettu afli allra virkjana Orkubús Vestfjarða í dag, en það er nú um 13,2 MW. (7) Hins vegar samsvarar raforkuþörfin aðeins um 2% af uppsettu afli Kárahnjúkavirkjunar. (8)
3 Stóriðja eður ei?
Svo virðist sem skiptar skoðanir séu uppi um það hvort skilgreina beri umrædda olíuhreinsistöð í Dýrafirði sem stóriðju eður ei. Ekki virðist vera til nein opinber skilgreining á hugtakinu stóriðja, en í Orðabók Menningarsjóðs er orðið skýrt sem „verksmiðjuframleiðsla þungavöru í stórum stíl, stórfelld iðnaðarframleiðsla“. (9) Álver Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði, sem allir virðast sammála um að flokkist sem stóriðja, mun framleiða 322.000 tonn af áli árlega þegar það er komið í fulla notkun, en eins og fram hefur komið er reiknað með að hráefni olíuhreinsistöðvarinnar verði um 8,5 milljónir tonna á ári. Beinn samanburður á þessum tölum er ekki fyllilega raunhæfur, en þó er ljóst að margfalt meira magn af vöru verður framleitt í olíuhreinsistöðinni en í álverinu. Hvort um þungavöru sé að ræða er svo annað mál, en skv. Orðabók Menningarsjóðs er þungavara einfaldlega „þung vara“.
Annar mælikvarði sem notaður hefur verið í umræðunni um stóriðju eða ekki stóriðju er orkuþörf stöðvarinnar. Sé litið á raforkuþörfina eina og sér er hún ekki veruleg, a.m.k. ekki sé miðað við afl Kárahnjúkavirkjunar sem þarf til að knýja álverið á Reyðarfirði. Sé litið á heildarorkuþörfina er allt annað upp á teningnum. Að vísu liggja ekki fyrir nákvæmar tölur um þetta, en hægt er að áætla orkuþörfina gróflega út frá áætlaðri losun gróðurhúsalofttegunda, sem er um 1 milljón tonna á ári eins og fram hefur komið. Sé gengið út frá því að þetta sé allt tilkomið vegna brennslu á eldsneyti sem ný tist sem orkugjafi, má ætla að árlega verði brennt um 333.000 tonnum af olíu í þessu skyni, (miðað við að 3 kg af koltvísýringi losni við brennslu 1 kg af olíu). Ekki er fjarri lagi að ætla að orkugildi olíunnar sé um 11 KWst/kg, þ.e. um 11 MWst/tonn. Fyrrnefnd 333.000 tonn af olíu jafngilda þá u.þ.b. 3.663.000 MWst eða 3.663 GWst á ári. Fyrrnefnd 15 MW af raforku gætu samsvarað um 100 GWst á ári. Heildarorkunotkun olíuhreinsistöðvarinnar væri samkvæmt þessu 3.763 GWst á ári. Þar af væri innlend raforka vel að merkja aðeins um 2,65%. Orkuþörf fullbyggðs álvers á Reyðarfirði er hins vegar 4.700 GWst miðað við 322.000 tonna ársframleiðslu. (10) Þessir útreikningar benda til að samanlögð orkuþörf olíuhreinsistöðvar í Dýrafirði gæti verið um 80% af orkuþörf álversins á Reyðarfirði. Vissulega eru hér á ferðinni mjög grófir útreikningar, en þeir nægja þó sem rök fyrir því að þessi tvö umræddu stórverkefni séu ekki eins gjörólík hvað orkuþörf varðar eins og ætla mætti miðað við umræðu síðustu daga.
Meginniðurstaða þessara vangaveltna um framleiðslumagn og orkuþörf er sú, að umrædd olíuhreinsistöð í Dýrafirði hljóti að teljast stjóriðja, hvernig sem á það er litið. Þar með er ljóst að áform um byggingu stöðvarinnar stangast á við þá stefnu Fjórðungsþings Vestfirðinga að Vestfirðir skuli vera stóriðjulaust svæði. Pólitískt vægi þessarar stefnu er hins vegar ekki til umfjöllunar í þessari samantekt.
4 Áhrif á ímynd og ferðaþjónustu
Áhrif umræddrar olíuhreinsistöðvar á ímynd Vestfjarða og ferðaþjónustu á svæðinu liggja í sjálfu sér utan við umfjöllunarefni þessarar samantektar. Í tengslum við umræðu um umhverfisáhrif stöðvarinnar er þó eðlilegt að jafnframt sé horft til samfélagslegra áhrifa, þ.á.m. til félagshagfræðilegra áhrifa. Ljóst er að tilkoma stöðvarinnar myndi hafa veruleg áhrif á samfélagið, m.a. á vægi atvinnugreina. Á þessari stundu eru ekki forsendur til að nefna tölur í því sambandi, en þó má gera ráð fyrir að uppbygging stöðvarinnar myndi hafa neikvæð áhrif á ýmsa smærri atvinnustarfsemi, bæði vegna breyttrar ímyndar og ruðningsáhrifa. Í þessu sambandi má einnig nefna að stórar hugmyndir á borð við þessa virðast til þess fallnar að draga úr frumkvæði og beina athyglinni frá öðrum og smærri samverkandi lausnum á þeim vanda sem við er að etja á hverjum tíma.
Vestfirðir hafa um 15 ára skeið verið markaðssettir með sérstakri áherslu á hreina ímynd svæðisins og þess varnings sem þaðan kemur. Olíuhreinsistöð fellur ekki vel að þessari ímynd, hvorki huglægt né þegar rýnt er í einstaka umhverfisþætti sem tengjast starfsemi stöðvarinnar (sjá framar). Því má leiða að því rök að með tilkomu stöðvarinnar skerðist aðrir möguleikar til markaðssetningar og sölu afurða og þjónustu. Í þessu sambandi er vert að benda á að ferðaþjónusta er sú atvinnugrein í heiminum sem vex hraðast. Ekkert lát virðist vera á þeim vexti og flest bendir til að hann verði mestur í vistvænni ferðaþjónustu á borð við þá sem Vestfirðir geta boðið. Þessum vexti munu fylgja ný tækifæri í öðrum atvinnugreinum, sem í framtíðinni munu óhjákvæmilega tengjast ferðaþjónustunni meir og meir. Þar má m.a. nefna matvælaframleiðslu af ýmsu tagi, einkum staðbundna framleiðslu í smáum stíl. Enginn veit hversu stór tækifæri felast í þessu, en ljóst er að sú sérstaða sem Vestfirðir virðast hafa hvað þetta varðar mun minnka til muna ef af umræddri uppbyggingu olíuiðnaðar verður. Hér verður ekki bæði sleppt og haldið. Loks má minna á að til lengri tíma litið mun olíuiðnaðurinn fara hnignandi samfara auknum vinnslukostnaði og aukinni sókn í aðra orkugjafa. Þau áhrif munu þó líklega ekki koma fram af fullum þunga á líftíma umræddrar stöðvar.
Tilkoma olíuhreinsistöðvar myndi að sjálfsögðu einnig hafa margvísleg jákvæð áhrif á samfélagið á Vestfjörðum, m.a. vegna bættra samgangna sem hljóta að fylgja verkefni af þessari stærð. Tilteknar þjónustugreinar munu einnig eflast og tekjur sveitarfélaga aukast. Þegar olíuhreinsistöð annars vegar og uppbygging ferðaþjónustu og smáiðnaðar hins vegar eru borin saman sem tveir andstæðir valkostir, þó að sú sé ekki endilega raunin, þá skiptir tímaþátturinn meginmáli. Þannig getur niðurstaða þessa samanburðar orðið gjörólík eftir því hvort horft er til skamms tíma, meðallangs tíma eða langs tíma. Með skömmum tíma er hér átt við fyrstu 5-10 árin, þ.e. einkum byggingartíma stöðvarinnar. Með meðallöngum tíma er átt við þarnæstu 10-15 ár, en með löngum tíma við næstu 30 ár þar á eftir. Inn í þennan samanburð þarf að taka marga ólíka þætti, sem engan veginn liggja allir fyrir á þessari stundu. Einn þessara þátta er þó líkleg þróun mismunandi atvinnugreina og viðskiptatækifæra, bæði heimafyrir og á heimsvísu.
5 Helstu heimildir
1. Integrated Pollution Prevention and Control Bureau. http://eippcb.jrc.es/
2. Integrated Pollution Prevention and Control (IPPC). Reference Document on Best Available Techniques for Mineral Oil and Gas Refineries. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, 2003. http://eippcb.jrc.es/pages/locatemr2.cfm?file=ref_bref_0203.pdf&name=Refineries&info=info/ref.htm
3. Umhverfisstofnun; Útstreymisbókhald:
http://www.ust.is/Mengunarvarnir/Hnattraenmengun/Grodurhusaahrifin/Utstreymisbokhald/
4. Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2004-2016. Skýrslur UST-2004:14. Umhverfisstofnun, Reykjavík, 2004.
http://www.ust.is/media/skyrslur2004/Landsaaetlun2004-2016.pdf
5. Många fall av leukemi vid oljeraffinaderi. Frétt í Sveriges Radio 13. sept. 2006.
http://www.sr.se/cgi-bin/isidorpub/PrinterFriendlyArticle.asp?artikel=938236&ProgramID=83
6. Över 1.500 evakuerades i norsk oljeolycka. Frétt í Dagens Nyheter 30. jan. 2007.
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=612162&rss=1400
7. Orkubú Vestfjarða; Virkjanir: http://www.ov.is/is/virkjanir/
8. Kárahnjúkar: http://www.karahnjukar.is/
9. Árni Böðvarsson (ritstj.): Íslenzk orðabók handa skólum og almenningi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík, 1980.
10. Álver í Reyðarfirði, Fjarðabyggð. Ársframleiðslugeta allt að 346.000 tonn. Matsskýrsla HRV Engineering, júlí 2006.
http://www.alcoa.com/iceland/ic/pdf/2006_08_eia_icelandic.pdf
11. Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Oil_refinery#See_also
Greinin birtist fyrst á vefnum strandir.is þ. 24. apríl 2007.
Mynd: Olíuhreinsunarstöð Intecha. Færi vel í Arnarfirði ekki satt?Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsunarstöðva“, Náttúran.is: 18. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/18/umhverfisthaettir-i-rekstri-oliuhreinsunarstoova/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. febrúar 2008