Metnaðarfull markmið án sannfærandi áætlana
G8-ríkin samþykktu í fyrradag að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um helming fyrir miðja öldina, en mistókst að komast að samkomulagi um skammtímamarkmið sem eru miklum mun umdeildari.
Þetta er niðurstaða fundar umhverfisráðherra G8-ríkjanna í Kobe í Japan, en talsmenn Sameinuðu þjóðanna, þróunarlanda og Evrópuríkja höfðu sett mikinn þrýsting á ráðherrana um að koma sér niður á bindandi markmið fyrir árið 2020.
Ráðherrarnir, sem voru frá Bandaríkjunum, Japan, Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi, Kanada, Ítalíu og Rússlandi, eru sagðir hafa valdið bæði umhverfisverndarsinnum og leiðtogum Evrópuríkja vonbrigðum með ákvörðun sinni.
Í afar varlega orðaðri yfirlýsingu fundarins er aðeins rætt um nauðsyn þess að setja bindandi markmið einhvern tímann í framtíðinni, í stað þess að markmiðin séu þegar sett, segir í frétt The Independent.
„Samkvæmt vísindalegu sjónarmiði þurfum við skýr markmið um samdrátt losunar, vegna þess að næstu 20 árin skipta mjög, mjög miklu máli fyrir loftslagsbreytingar og ákvarðanirnar sem við tökum í því ferli,“ sagði Matthias Machnig, umhverfisráðherra Þýskalands.
Birt:
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Metnaðarfull markmið án sannfærandi áætlana“, Náttúran.is: 28. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/28/metnaoarfull-markmio-sannfaerandi-aaetlana/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.