Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ákvað á fundi sínum í dag að selja 16,58% eignarhlut fyrirtækisins í Hitaveitu Suðurnesja. Fól stjórnin stjórnarformanni og forstjóra að leita eftir tilboðum.  Haft verður samráð við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði með það fyrir augum að kanna hvort hagkvæmt sé að hafa samstarf um söluna.
Orkuveita Reykjavíkur keypti hlutinn í HS um mitt ár 2007 og er bókfært virði hans 8,67 milljarðar króna. Allt frá því í febrúar 2008, þegar Orkuveitu Reykjavíkur barst andmælaskjal Samkeppniseftirlitsins vegna kaupanna, hefur staða eignarhlutarins verði í uppnámi. Samkvæmt niðurstöðu Áfrþjunarnefndar samkeppnismála mátti Orkuveita Reykjavíkur ekki eiga nema 10% í HS. Með því útilokaðist einnig að Orkuveita Reykjavíkur gæti látið áður áformuð kaup á u.þ.b. 15% hlut Hafnarfjarðarbæjar í Hitaveitunni. Ágreiningur Orkuveitu Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæjar er fyrir dómstólum.

Allt frá því viðhorf samkeppnisyfirvalda lá fyrir hefur stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fengist við það að greiða úr málum þannig að skilyrði samkeppnisyfirvalda yrðu uppfyllt, hagsmuna Orkuveitu Reykjavíkur gætt og leitast væri við að greiða úr ágreiningi við Hafnarfjarðarbæ. Hefur málið verið til umræðu innan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur allt þetta ár og á fundi sínum í dag áréttaði stjórnin áform sín um að selja eignarhlutinn.
Í samræmi við lög, sem sett voru á Alþingi síðastliðið vor, verður Hitaveitu Suðurnesja skipt upp nú um áramótin í HS Orku hf. og HS Dreifingu hf. og verður eignarhlutur OR 16,58% í hvoru félagi. Áformað er að selja hluti Orkuveitu Reykjavíkur í báðum félögum.

Birt:
19. desember 2008
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hyggst selja hlutinn í HS“, Náttúran.is: 19. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/19/stjorn-orkuveitu-reykjavikur-hyggst-selja-hlutinn-/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: